Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Báðir stjórnarflokkarnir tapa fylgi

20.10.2013 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Báðir stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa tapað fylgi frá kosningum, samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Sjálfstæðisflokkurinn er þó stærstur flokka á landsvísu, en 23,2% kjósenda styðja hann. Það er þremur og hálfu prósentustigi minna fylgi en í kosningunum í vor. Framsóknarflokkurinn tapar mun meira fylgi en stuðningur við hann mælist nú um 14,8%. Það er tíu prósentustigum minna fylgi en í vor. Samfylkingin eykur fylgi sitt og mælist næst stærsti flokkurinn. 19,7% kjósenda styðja hana, 14,5% styðja Vinstri græn og 12,4% styðja Bjarta framtíð. 8,5% styðja Pírata og 2,3% styðja Dögun. Aðrir flokkar fengju minna fylgi.

Þannig mælist fylgi Hægri grænna 1,3%, Flokkur heimilanna mælist með 1,1% fylgi og Lýðræðisvaktin mælist með 0,8%. 0,7% styðja Regnbogann, 0,6% Húmanistaflokkinn og 0,2% Sturlu Jónsson. Aðrir mælast ekki með fylgi.  

Tæplega þúsund manns tóku þátt í könnuninni en það var nærri 65% svarhlutfall.

Könnunin var framkvæmd dagana 3. - 16. október síðastliðinn. 979 einstaklingar svöruðu könnuninni í heild og 866 svöruðu spurningunni um stjórnmálaflokka. Þar af merktu 786 við tiltekinn flokk, 49 merktu við „Veit ekki“ en 32 sögðust ekki myndu kjósa. 52 sögðust myndu skila auðu eða ógildu. Niðurstöðurnar voru vegnar eftir kyni, aldri, búsetu og menntun.