Bað um humar með ást

Mynd: RÚV / RÚV

Bað um humar með ást

15.06.2018 - 10:22

Höfundar

„Hann var ekki alveg viss um hvernig hann átti að svara þessu!“ segir Eliza Reid forsetafrú um viðbrögð Patreks Jóhannessonar við eftirminnilegum tungumálamisskilningi sem átti sér stað á Humarhúsinu árið 1999.

Eliza Reid kom fyrst til Íslands árið 1999. Hún lauk meistaranámi það sumar og fór í framhaldinu í sex vikna bakpokaferðalag með Interrail. Seinna það ár kom hún í heimsókn til Íslands.

„Við Guðni fórum út að borða á Humarhúsið með Patreki bróður hans Guðna og Rakel sem var þá nýja kærastan hans, en núna konan hans,“ segir Eliza. „Patti bjó í Þýskalandi á þeim tíma og talaði ensku en ekki mjög mikið, og ég var að reyna að segja eitthvað á íslensku við hann.“

Hún segist hafa verið mjög forvitin um tungumálið og hana hafi langað að læra meira. „Við vorum að panta humar, að sjálfsögðu. Það var humar au gratine [ísl. gratíneraður], eins og kallað er og ég þekkti orðið „ostur“ á íslensku,“ segir hún. „Hann pantaði sinn humar og ég horfði á hann og sagði „með ást?“ alveg að ruglast á ást og ostur. Hann var ekki alveg viss um hvernig hann átti að svara þessu!“

Atvikið hefur síðan orðið að brandara í fjölskyldunni. „Þegar ég vil fá salt eða pipar eð eitthvað á borðinu þá er spurt: Viltu fá þetta með ást?“ segir Eliza og hlær.

Eliza Reid verður gestur Hrafnhildar Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á þjóðhátíðardaginn klukkan 12:40.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Kaos þegar Eliza týndi eyrnalokknum

Eliza Reid forsetafrú í flóttamannabúðum

Innlent

Neyðarkall frá Guðna - Eliza hleypur í skarðið

Bókmenntir

Eliza Reid: Á milli spjaldanna