Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bach-aðu þig upp

Mynd: Wikimedia Commons / LHI / Wikimedia Commons / LHI

Bach-aðu þig upp

21.03.2018 - 09:26

Höfundar

Í dag, 21. mars, eru 333 ár síðan tónskáldið Johann Sebastian Bach fæddist. Að því tilefni stendur tónlistardeild Listaháskóla Íslands fyrir opinni æfingu fyrir alla sem eiga nótur að einhverju eftir Bach og hljóðfæri til að æfa sig á. Berglind María Tómasdóttir sagði frá viðburðinum í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið má heyra hér að ofan.

Tónlistarmenn um víða veröld halda upp á daginn með margvíslegum hætti. Í borgum víða erlendis er Bach spilaður í neðanjarðarlestakerfum. 

Hér á landi verður haldið upp á daginn í Hörpu en þangað er öllum velkomið að mæta með hljóðfærin sín og söngröddina og spila eða syngja brot úr tónverkum meistarans. Einleiksverk og kammerverk, einsöngsverk og kórverk, hljómsveitarverk, allt höfundaverkið er undir og meiningin er að úr tónbrotunum sem hljóma munu í Hörpu muni myndast voldugur og glundaroðakenndur hljóðveggur, sannkölluð Bachófónía.

Því fleiri sem mæta, því betra og skemmtilegra. Berglind María segir tilefnið ærið: „Við viljum samgleðjast yfir því að eiga þessa tónlist sem gefur okkur svo mikið. Vil viljum búa til stund þar sem fólk kemur saman til tónlistarflutnings, en samt ekki. Með því opnum við líka þennan lokaða heim tónlistaræfinganna. Fólk æfir yfirleitt í einrúmi og það er fovitnilegt að æfa saman,“ segir Berglind María Tómasdóttir, umsjónarmaður verkefnisins. 

Nánar má heyra af viðburðinum í viðtalinu hér að ofan, en hér er facebook-viðburðurinn.