Auknir möguleikar við botnrannsóknir

02.05.2017 - 18:55
Mynd með færslu
Árni Friðriksson í slipp á Akureyri Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Með nýjum tækjum sem verið er að setja í rannsóknarskipið Árna Friðriksson verður hægt að auka mjög nákvæmni við að kortleggja hafsbotninn við Ísland. Eftir rúman áratug á að verða til kort af allri íslensku efnahagslögsögunni.

Þegar Hafrannsóknarstofnun eignaðist rannsóknarskipið Árna Friðriksson árið 2000 batnaði mjög aðstaða við kortlagningu hafsbotnsins í íslensku efnahagslögsögunni. Þá var tekinn í notkun nýr fjölgeisladýptarmælir sem mældi af mun meiri nákvæmni en fyrri mælar. En þessi mælir hefur látið á sjá og því er nú verið að koma nýjum mælum fyrir í skipinu í Slippnum á Akureyri.

Nýir mælar til kortlagningar og jarðfræðirannsókna

„Í fyrsta lagi erum við að endurnýja þennan fjölgeislamæli til kortlagningar hafsbotnsins. En síðan bætum við við svokölluðum jarðlagamæli,“ segir Páll Reynisson, sérfærðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, sem vinnur ásamt tæknimönnum að uppsetningu tækjanna. Með jarðlagamælinum er hægt að mæla þykkt jarðlaga nokkra tugi metra niður fyrir hafsbotninn.

Ætla að kortlegga alla lögsöguna

Frá aldamótum hefur Hafrannsóknarstofnun náð að kortleggja umtalsvert af hafsbotninum. Á 50 ára afmæli stofnunarinnar árið 2015 ákváðu stjórnvöld að auka fjármagn til þessarra rannsókna svo ljúka mætti við kortlagningu á allri lögsögunni, 754 þúsund ferkílómetrum. “Hugsunin er sú að keyra nokkuð stíft á þetta næstu 10 til 12 á allavega,“ segir Páll, en það hefði aldrei tekist með þeim mælitækjum sem fyrir voru.

Mjög mikilvægar upplýsingar 

Þær upplýsingar sem til verða við þessar mælingar eru taldar mjög mikilvægar. Siglingakort verða nákvæmari og þekking á hafsbotninum nýtist við rannsóknir á lífríki hafsins, eðliseiginleikum sjávar og jarðfræði botnsins. Þetta eru upplýsingar sem verða aðgengilegar öðrum og gefa því möguleika á frekari rannsóknum í framtíðinni.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi