Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Auknar hvalveiðar myndu stækka fiskistofna

16.01.2019 - 22:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Hvalveiðar eru þjóðhagslega hagkvæmar, samkvæmt niðurstöðu úttektar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ef aukið væri við veiðarnar myndu fiskistofnar stækka. 

Íslendingar veiða þrjú prósent af þeim hvölum sem veiddir eru. Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun vann að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins. Viðfangsefnið var að kanna þjóðhagsleg áhrif hvalveiða.

„Hvalaskoðun á árinu 2017 var með 3,2 milljarðar í tekjur. Hvalveiðar með í kringum 1,7,“ segir Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Er hagkvæmt fyrir Íslendinga að veiða hvali?

„Við lögðum mat á þetta og skoðuðum alla jákvæða og neikvæða þætti og þegar allt er tekið saman þá er hagkvæmt að stunda hvalveiðar já,“ segir Oddgeir.

Hörð mótmæli voru við hvalveiðum Íslendinga á níunda áratug síðustu aldar og það hefði getað fælt ferðamenn í burtu.

„Þá fjölgaði ferðamönnum og þeim fjölgaði meira en í Bretlandi á sama tíma,“ segir Oddgeir.

Einnig voru skouð möguleg jákvæð áhrif veiða. 

„Hvalir eru að éta svona sjö- til áttfalt magn af því sem við erum að veiða, eða Íslendingar eru að veiða. Og þetta át þeirra hefur mikil áhrif. Hvalastofnarnir eru að stækka mjög mikið og áhrifin af hvalnum gætu átt eftir að aukast,“ segir Oddgeir.

Auknar hvalveiðar gætu því verið jákvæðar.

„Niðurstaðan var sú já. Fiskistofnarnir njóta góðs af því ef hvalastofnarnir minnka,“ segir Oddgeir.

En gætu auknar hvalveiðar lagt hvalaskoðun að velli?

„Það eru engin gögn sem benda til þess,“ segir Oddgeir.