Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Aukinn stuðningur við ríkisstjórnina

Mynd með færslu
 Mynd:
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um fjögur prósentustig milli mánaða, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi flokka stendur að mestu í stað en Björt framtíð tapar tveimur prósentustigum.

Ríkisstjórnin mælist nú með stuðning 41 prósents landsmanna. Það er fjórum prósentustigum meira en fyrir mánuði, þegar stuðningur við stjórnina mældist minni en hann hafði áður gert frá því hún var mynduð. Mestur mældist stuðningur við stjórnina 54 prósent, skömmu eftir að hún tók við völdum.

Fylgi við einstaka stjórnmálaflokka breytist lítið milli mánaða. Fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar eykst um 0,7 prósentustig milli mánaða. Sjálfstæðisflokkur mælist með 25 prósent, Samfylkingin sautján prósent og Framsóknarflokkur fjórtán. Björt framtíð tapar tveimur prósentustigum og mælist með fimmtán og hálfs prósenta fylgi. Tæp tólf prósent myndu kjósa Vinstri-græn og níu prósent Pírata.

Stjórnarflokkarnir mælast því með 39 prósenta fylgi samanlagt en stjórnarandstöðuflokkarnir 54 prósenta fylgi. Sjö prósent segjast myndu kjósa flokka sem ekki eiga sæti á Alþingi.

Niðurstöðurnar byggja á netkönnun Capacent Gallup sem unnin var frá 27. mars til 29. apríl. Heildarúttakið var 8.124 og þátttökuhlutfall 60,0%. Vikmörk eru 0,9 til 1,4 prósent.