Aukinn stuðningur við Borgarlínu

24.06.2019 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega helmingur landsmanna er hlynntur Borgarlínu en tæplega fjórðungur er henni andvígur, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu. Stuðningur við Borgarlínu hefur aukist og andstaða við hana minnkað frá síðustu könnun, sem var gerð fyrir ári síðan.

Í nýju könnuninni segja 54 prósent vera hlynnt Borgarlínu en 22 prósent andvíg. 24 prósent völdu valmöguleikann „í meðallagi“. Fyrir ári sögðust 45 prósent vera fylgjandi Borgarlínu en 28 prósent andvíg henni. Niðurstaðan nú er líkari því sem var í byrjun síðasta árs þegar 53 prósent voru fylgjandi en 25 prósent andvíg. 

32,4 prósent eru mjög hlynnt Borgarlínu og 21,9 prósent frekar hlynnt. 12,5 prósent eru mjög andvíg og 9,4 prósent frekar andvíg.

Konur eru hlynntari Borgarlínu en karlar, fólk á höfuðborgarsvæðinu er hlynntara henni en fólk annars staðar á landinu og stuðningur við hana eykst með aukinni menntun. Samfylkingarfólk er hlynntast Borgarlínu en Miðflokksfólk andvígast henni.

Mestur stuðningur í miðbænum, Vesturbæ og Seltjarnarnesi

Ef aðeins er litið til höfuðborgarsvæðisins sést að íbúar Miðborgar, Vesturbæs og Seltjarnarness eru hlynntastir Borgarlínu. 77 prósent þeirra eru hlynnt henni en fjórtán prósent andvíg. Það er aðeins í Kópavogi sem innan við helmingur lýsir sig hlynntan Borgarlínu, 47 prósent. Mest andstaða við Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu mælist í Kópavogi og Breiðholti, 26 prósent.

Um sjö af hverjum tíu á aldrinum 30 til 39 ára eru fylgjandi Borgarlínu en einn af tíu andvígur. Minnstur er stuðningurinn (44,9 prósent) meðal 60 ára og eldri og andstaðan mest (30,8 prósent). 

Reykvíkingar eru hlynntastir Borgarlínu, 64,1 prósent fylgjandi en 19,6 prósent á móti. Íbúar á Austurlandi eru þeir einu sem lýsa meiri andstöðu við Borgarlínu en stuðningi. 34,4 prósent eru hlynnt Borgarlínu en 37,9 prósent andvíg.

Stuðningur við Borgarlínu er mestur í efstu tekjuhópunum en andstaða mest í næst tekjulægsta hópnum (400 til 549 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði).

Miðflokkur og Framsókn andvígust Borgarlínu

Mikill munur er á afstöðu flokks til Borgarlínu eftir stuðningi þess við stjórnmálaflokka. 83,9 prósent Samfylkingarfólks, 83 prósent stuðningsmanna Viðreisnar og 79,9 prósent Pírata eru hlynnt Borgarlínu. 73,5 prósent Vinstri grænna eru hlynnt Borgarlínu.

Miðflokksfólk er áberandi andvígast Borgarlínu. 73,9 prósent þeirra og 56,4 prósent Framsóknarmanna eru andvíg Borgarlínu. 40,2 prósent stuðningsmanna Flokks fólksins setja sig upp á móti Borgarlínu.

Sjálfstæðismenn skiptast í þrjá álíka stóra hópa í afstöðu sinni til Borgarlínu. 33,2 prósent eru henni hlynnt, 31 prósent í meðallagi og 35,8 prósent eru henni andvíg.

Í skjali í viðhengi við þessa frétt má nálgast allar niðurstöður könnunarinnar og upplýsingar um framkvæmd hennar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi