Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Aukinn kraftur í eldgosinu - Myndskeið

31.08.2014 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Veðurstofa Íslands hefur lækkað viðvörunarstig vegna flugumferðar úr rauðu í appelsínugult. Engu að síður er meiri kraftur í eldgosinu í Holuhrauni nú en var í morgun, að sögn Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá hraunið vella fram.

Myndirnar tók Þorsteinn Jónsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Lokun lögreglustjóranna á Húsavík og Seyðisfirði á hálendinu norðan Vatnajökuls eru enn í gildi. Allir vegir inn á svæði eru einnig lokaðir. Ákvörðunin er fyrst og fremst í varúðarskyni. Vísindamenn voru á svæðinu þegar gosið hófst vegna uppsetningar á mælitækjum. Þeir hafa nú snúið til byggða vegnaóveðursins á svæðinu. Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð og Aðgerðastjórnin á Húsavík auk vísindamannaVeðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ fylgjast náið með þróun mála.

Gosið hófst norðan Vatnajökuls upp úr klukkan fjögur í nótt. Þetta er þriðja gosið á Bárðarbungusvæðinu á rúmri viku. Gosið er hraungos, á sömu sprungu og opnaðist aðfaranótt föstudags, en gosið nú er 10-20 sinnum stærra. Ármann segir að krafturinn úr því sé meiri en í morgun sérstaklega úr mið sprungunni. Í morgun var hraunstraumurinn um það bil einn kílómetri á breidd og þrír kílómetrar að lengd.

Enn er stöðug skjálftavirkni á Bárðarbungusvæðinu. Frá miðnætti hafa mælst um 600 skjálftar á svæðinu. Jarðskjálfti af stærðinni 5,1 varð í norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar rétt eftir tólf. Þetta er níundi skjálftinn á þessum slóðum, yfir fimm að stærð, frá því hrinan hófst. Stærsti skjálftinn varð á þriðjudaginn, 5,7 að stærð.