„Aukinn hraði á kostnað öryggis“

26.11.2018 - 21:19
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vinnueftirlitið hefur í þessum mánuði tvisvar þurft að grípa til þess að banna vinnu við flökunarvélar í fiskvinnslustöðvum þar sem öryggisrofar voru óvirkir eða búið að fjarlægja hlífar. Fræðslustjóri eftirlitsins segir auðveldast að koma í veg fyrir alvarlegustu slysin en það sé ekki gert. 

 

„Stundum bera menn því við að þeir nái einhverjum auknum hraða með þessu en það er þá alltaf á kostnað öryggis, í allt of mörgum tilfellum er þetta bara hreinn trassaskapur,“ segir Guðmundur Kjerúlf, fræðslustjóri Vinnueftirlitsins. 

Segir fólk plata vélina og tengja fram hjá

Vinnueftirlitið birti í dag skýrslur sínar vegna eftirlitsheimsókna í tvö fiskvinnslufyrirtæki fyrr í þessum mánuði, vinnslu Tor í Hafnarfirði og AG-Seafood í Sandgerði. Á báðum stöðum hafði eftirlitið gripið til þess ráðs að banna vinnu þar sem það taldi lífi og heilbrigði starfsmanna hætta búin, fram kemur að öryggisrofar á flökunarvélum hafi verið aftengdir og öryggishlífar opnaðar eða fjarlægðar. „Þegar menn fjarlægja öryggishlífar þá yfirleitt drepur vélin á sér, þá smíða menn splitti, tengja fram hjá eða plata vélina,“ segir Guðmundur. 

Vinnueftirlitið hefur á síðastliðnum fimm árum farið í tvö stór átök sem varða öryggismál í fiskvinnslufyrirtækjum og átt í góðu samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi en átökin hafi ekki skilað árangri. „Það er nokkuð sama hvaða fyrirtæki í fiskvinnslu okkar eftirlitsmenn heimsækja í dag, það vantar alltaf verulega mikið upp á.“

Geta orðið undir hnífnum eða læst inni í frystiklefa

Aðstæður séu oft þannig að fólk geti orðið undir hnífnum, klemst og flækst í vélum eða læst inni í frystiklefa. Þá séu mörg dæmi um að neyðarhnappar eða stangir virki ekki sem skyldi. Þessi vandamál hafi lengi loðað við geirann. 

Aðal athugasemdirnar lúta að flökunarvélunum, má segja að flest slysin megi rekja til þeirra?

„Nei,“ segir Guðmundur. „Flest slys tengjast handverkfærum, hnífum og því þegar verið er að ganga um vinnusvæðið en það eru alvarlegustu slysin, ljótu slysin sem verða við vélarnar og það eru slysin sem er auðveldast að koma í veg fyrir.“

Beinbrotum fjölgar

Slysum hefur fækkað lítillega í fiskvinnslu undanfarin ár. Beinbrotum hefur aftur á móti fjölgað. Guðmundur segir að þau gefi frekar mynd af þróuninni í greininni, þar sem frekar sé tilkynnt um beinbrot en önnur vinnuslys. 

Í skýrslunum eru gefin mörg fyirrmæli um úrbætur, 33 vegna TOR og 46 vegna AG-Seafood. Fram kemur að fyrirtækin hafi lagað flökunarvélarnar, vinna við þær hafi því verið leyfð á ný. Þau hafa tvo til þrjá mánuði til að bregðast við öðrum athugasemdum eftirlitsins. 

Vinnueftirlitið birtir einungis ákvarðanir ef vinna er bönnuð eða lagðar á dagsektir en Guðmundur segir að margar athugasemdir hafi einnig verið að finna í skýrslum eftirlitsins um aðrar vinnslustöðvar. 

Segjast þegar hafa brugðist við flestum athugasemdum

Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor, segir að fyrirtækið geri engar athugasemdir við skýrslu eftirlitsins.Í kjöflar heimsóknarinnar hafi verið unnin aðgerðaáætlun sem nú sé starfað eftir. Þegar hafi verið brugðist við öllum alvarlegustu athugasemdunum. Arthur Galvez, framkvæmdastjóri, segir að verið sé að vinna að endurbótum á áhættumati, þá sé búið að bregðast við flestum athugasemdum sem eftirlitið gerði. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi