Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Aukin umsvif vegna Holuhrauns

06.05.2015 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Tvöfalt fleiri landverðir verða við Öskju í sumar, á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, en í fyrrasumar. Þjóðgarðsvörður spáir aukinni umferð ferðamanna um þetta svæði eftir gosið í Holuhrauni. Þá lengi fólk dvöl sína til að geta bæði skoðað Öskju og Holuhraun í sömu ferð.

Vatnajökulsþjóðgarður fékk aukið fjármagn til að bregðast við auknum verkefnum í kjölfar eldgossins í Holuhrauni. Sex landverðir verða á svæðinu við Öskju í sumar sem er tvöfalt fleira er í fyrra. Þá var reyndar nokkur niðurskurður varðandi mannskap.

Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, segir þetta starfsfólk verða hluta af almannavörnum, því enn sé hætta yfirvofandi í kringum eldstöðina. Hlutir geti gerst með skömmum fyrirvara og þá sé fátt til bjargar nema viðvera landvarða og lögreglumanna.

Hjörleifur segir litla sem enga umferð um þetta svæði eins og er, enda illfært venjulegum farartækjum og bannsvæði 20 metra frá Holuhrauni. Hins vegar sé mikill áhugi hjá ferðaþjónustunni að komast upp að hrauni og viðbúið að umferð þarna muni aukast í sumar. Erfitt sé að segja til um hversu mikil hún verði. Hún gæti orðið hófleg, en einnig mjög mikil. 

Og þá sé líklegt að ferðirnar lengist og í stað eins dags ferða í Öskju, verði þetta tveggja daga ferðir að Ösku og Holuhrauni.

„Það verður kannski aðal breytingin á ferðamennsku til langs tíma að í staðinn fyrir að það sé einn segull, Askja, þá séu komnir tveir seglar. Það krefst þess að menn dvelji lengur á svæðinu", segir Hjörleifur.