Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aukin kannabisneysla mikið áhyggjuefni

22.01.2020 - 23:30
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kannabisneysla hefur aukist meðal fólk yfir þrítugu. Yfirlæknir fíknigeðdeildar á Landspítalanum segir efnið orðið sterkara og aðgengið betra. Dagreykingar hafa aukist hjá þeim sem yngri eru. 

Grunnskólanemum sem neyta kannabis hefur fækkað undanfarin tíu ár. „En við að sjá núna vaxandi neyslu og vandamál sem eru orðnir eldri, sem eru jafnvel komnir yfir þrítugt,“ segir Sigurður Örn Hektorsson yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítalans.

Þetta sést í aðsókn í meðferð, bæði á fíknigeðdeild Landspítalans og að Vogi. Eftir langvarandi neyslu getur fólk þróað með sér geðrofssjúkdóma.  „Við sjáum þetta í mjög auknu mæli undanfarin fimm ár í tengslum við kannabis og það er mjög mikið áhyggjuefni,“ segir Sigurður jafnframt. 

Af hverju heldur þú að það sé? „Vegna þess að kannabisefnið er orðið sterkara. Það er hreinræktaðra, það er ræktað á íslandi og það er mjög mikið aðgengi að þessu. Það er eins og dagreykingar hafi aukist. Tíðni reykinganna er orðin mikið meiri. Það eru tölur sem við sjáum reyndar meðal ungu neytendanna að tíðni reykinganna hefur farið vaxandi.“

Kanadamenn lögleiddu kannabis árið 2018. Dósent hjá Columbia-háskóla segir að það hafi verið erfiðara ferli en búist var við. Hann var gestur á Læknadögum í dag.

„Eins og er höfum við tvíþættan markað. Löglegan markað og ólöglegan og það er samkeppni þarna á milli. Með lögleiðingunni er ekki gefið að ólöglegi markaðurinn hverfi strax. Það eru margar neikvæðar afleiðingar við það að nota kannabis. Þær áttu að hverfa með lögleiðingunni en það hefur ekki gerst í Kanada,“ segir Christian G. Schulz.

Sigurði finnst að Íslendingar ættu að fara varlega í að lögleiða kannabis. „Litla Ísland ætti nú pínu lítið að sitja hjá og fylgjast með fylgist með reynslu annarra þjóða, hvernig þeim tekst til.“