Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aukin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

10.11.2017 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ákveðið hefur verið að hækka jöfnunarframlög vegna útgjalda sveitarfélaga um 675 milljónir króna á þessu ári. Þar af verður framlag vegna aukins kostnaðar við skólaakstur aukið um 175 milljónir.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem lagði til að jöfnunarframlag sjóðsins vegna A-hluta útgjalda sveitarfélaganna yrði hækkað um 500 milljónir króna á þessu ári.

A-hluti jöfnunarframlaga á við um aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna íbúafjölda, fjarlægða innan sveitarfélaga, fjölda þéttbýlisstaða, fækkunar íbúa og snjómoksturs. Eftir hækkun nemur áætlað framlag A- hluta 7.550 milljónum króna.

Áætlað var að greiðslur vegna B-hluta útgjaldajöfnunarframlaga ársins yrðu 575 milljónir króna. Það eru framlög vegna íþyngjandi kostnaðar við skólaakstur í dreifbýli, umfram tekjur. Í lok ársins verður 175 milljónum til viðbótar úthlutað á grundvelli umsókna frá sveitarfélögum. 

Þessar breytingar þýða að áætluð heildarúthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs, vegna útgjalda sveitarfélaganna, verður 8,3 milljarðar króna árið 2017.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV