Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aukið samstarf og sterkara Alþingi

30.11.2017 - 20:26
Mynd: Skjáskot / RÚV
Það sem skrifað var í stjórnarsáttmálann um að efla Alþingi og auka samstarf þvert á línur stjórnar og stjórnarandstöðu er meira en áður hefur verið gert, segir formaður Framsóknarflokksins. Forsætisráðherra vill styrkja Alþingi fjárhagslega svo það geti veitt framkvæmdavaldinu aukið aðhald. Þetta er meðal þess sem forystumenn stjórnarflokkanna ræddu í Kastljósi í kvöld.

Sterkara Alþingi og meira samstarf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að styrkja þurfi Alþingi fjárhagslega, meðal annars til að þingnefndir Alþingis geti sótt sér sérfræðiþjónustu. Það myndi til dæmis nýtast við að veita framkvæmdavaldinu aðhald. Að auki vilji stjórnin skipa þverpólitískan vettvang til að vinna ýmis mál.

Við skrifum inn ákveðna þætti um hvernig við viljum ná fram samráði og þverpólitískri vinnu, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, aðspurður hvers vegna fólk ætti að halda að meira kæmi út úr slíkum loforðum núna en áður þegar hefur verið talað um að efla þingið. Hann sagði fyrirheitin í stjórnarsáttmálanum vera meiri en gert hafi verið til þessa, og að með þessu væru stjórnarliðar að lýsa sig reiðubúna til samstarfs við stjórnarandstöðuna.

Ný heilbrigðisstefna

Heilbrigðismálin komu líka til umræðu. Sigurður Ingi sagði skýrt hvert eigi að stefna í heilbrigðiskerfinu, meðal annars með því að byggja undir opinbera kerfið. „Það er ekki nóg að setja fjármuni á borðið, það þarf skipulagsbreytingar.“

Katrín sagði flokkana ekki sammála um heilbrigðismál og þess vegna ætti að mynda skýra heilbrigðisstefnu þar sem væri meðal annars skoðuð fjármögnun og uppbygging kerfisins.

Skoða leiðir til að draga úr verðtryggingu

Í stjórnarsáttmálanum er talað um að draga úr vægi verðtryggingar.

Það er hægt að lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána og þannig þrengja um verðtryggð neytendalán, sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Einnig mætti þrengja að 40 ára verðtryggðum jafngreiðsluhúsnæðislánum en þá verði líka að skoða hvernig sé hægt að bregðast við neikvæðum áhrifum þeirra breytinga, þar sem lægsta greiðslubyrðin er af þeim lánum.

Nýta verði orkuna betur

Nýr umhverfisráðherra var áður framkvæmdastjóri Landverndar og hefur beitt sér mjög vegna lagningar rafmagnsflutningslína. Baldvin Þór Bergsson, umsjónarmaður Kastljóss spurði hvort hann gæti ekki þegar verið orðinn vanhæfur í nokkrum málum.

Katrín sagði forgangsatriði að nýta ónýtta orku sem til er í rafmagnskerfinu og styrkja dreifikerfið. Einnig þurfi að einfalda ferlið í raforkumálum sem hafi verið seinvirkt og leitt til deilumála. Þess vegna væri gott að hafa mann sem þekki vel til málaflokksins sagði Katrín.

„Það er góð umhverfisstefna að nýta orkuna sem allra best, sem hefur verið virkjuð,“ sagði Bjarni. „Á móti ef við erum með virkjanir og sendum orkuna út í dreifikerfið, flutningskerfið, en komum því ekki til skila þar sem er þörf fyrir það þá er það slæm umhverfisstefna því hún þrýstir á um fleiri virkjanir sem í raun og veru er ekki þörf fyrir ef menn myndu bara hafa öflugra flutnings- og dreifikerfi.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV