Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aukið eftirlit með sýklalyfjaónæmi á Íslandi

06.01.2019 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Ráðherra hefur sett reglugerð um aukna vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, dýrafóðri og matvælum, innlendum og erlendum. Alþjóðastofnanir hvetja til aðgerða gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum vegna ofnotkunar á sýklalyfjum í dýrum og mönnum. Formaður Bændasamtakanna segir stjórnvöld einblína of mikið á viðskiptafrelsi þegar kemur að innflutningi á erlendum matvælum.

Alþjóðastofnanir hvetja til aðgerða

Aukin notkun sýklalyfja í heiminum, í mönnum og dýrum, gerir það að verkum að til verða sýklalyfjaónæmar bakteríur og er það talin ein helsta lýðheilsuógn samtímans. Fyrir áramót lögðu Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna fram sameiginlegar tillögur þar sem hvatt var til vöktunar á ónæmum bakteríum og að sýklalyfjanotkun í landbúnaði verði hætt. Var það gert í lok ráðstefnu á alþjóðlegri vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja. 

Draga úr ávísunum sýklalyfja og auka eftirlit

Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslu um útbreiðslu sýklalyfjaónæmis vorið 2017. Þar var meðal annars lagt til að draga þyrfti úr ávísunum sýklalyfja og efla eftirlit í innlendum og erlendum matvælum. Landlæknir hefur hvatt lækna til að draga úr ávísunum lyfjanna og nú í lok nóvember setti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, reglugerð um aukna vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum og matvælum hér. 

Minna notað í íslensk dýr en meira í íslenskt fólk

Sýklalyfjaónæmi í kjúklingum er minnst hér á landi miðað við önnur Evrópulönd, samkvæmt Matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins 2018. Í tölum Lyfjastofnunar Evrópu frá 2016 sést að notkun sýklalyfja í landbúnaði hér er einnig sú minnsta. Hins vegar hefur sýklalyfjanotkun í mönnum aukist, samkvæmt skýrslu um sýklalyfjanotkun og algengi sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi í mönnum, dýrum og afurðum dýra 2017. 

Bændur lengi bent á sérstöðu Íslands

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir bændur lengi hafa bent á kostinn sem fylgi einangrun íslensku búfjárstofnanna og lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði. 

„Við höfum oft rætt um innflutning matvæla á grundvelli viðskiptahagsmuna og viðskiptafrelsis, en eins og sést er margt annað mikilvægt sem kemur til,” segir Sindri. Löngu tímabært sé að tryggja íslenskum landbúnaði betri starfsskilyrði. „Mér finnst heilt yfir að pólitíkusar séu allt of gjarnir til að kikna í hnjánum þegar kemur að umræðum um tollfrelsi og viðskiptafrelsi. Og það sé einhvern veginn upphaf og endir alls.” 

Algjörlega ósammála um innflutning matvæla

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir sýkla- og veirudeildar Landspítalans, sagði í fréttum í gær að sporna verði við auknum innflutningi á matvælum til að koma í veg fyrir að sýklalyfjaónæmar bakteríur berist til landsins. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, vísaði þessu alfarið á bug og benti á skýrslu sem félagið hafði látið óháða sérfræðinga gera og leiddi í ljós að hætta vegna innflutnings á ferskri matvöru sé lítill sem engin.