Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Auka þarf fjárframlög vegna flóttamanna

01.09.2015 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þeir fjármunir sem ráðstafað hafði verið í málefni flóttamanna í ár eru búnir. Nauðsynlegt er að verja auknu fé til málaflokksins ef taka á á móti fleiri flóttamönnum en gert hafði verið ráð fyrir. Kostnaður við hvern flóttamanna nemur um 4-5 milljónum á ári.

Eygló Harðardóttir velferðarráðherra sagði í Kastljósi í kvöld að bæta þyrfti verulega í til að svara þeirri neyð sem nú væri uppi. Meðal annars þyrfti að bæta verulega umhverfi hælisleitanda og tryggja að þeir sem fengju stöðu flóttamanna fengju sömu þjónustu og svo kallaðir kvótaflóttamenn.

Ríkisstjórnin hefur ekki viljað gefa upp hvort fjölga eigi þeim flóttamönnum sem koma til landsins. Eygló segir að fyrir utan það að Íslendingar þurfi að hjálpa þeim sem nú flýi ástandið í Sýrlandi þurfi jafnframt að skoða hvað hægt sé að gera fyrir þá sem þegar eru komnir til Íslands.

baldvinb's picture
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður