Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Auka framlög um milljarða í fjármálaáætlun

23.03.2019 - 19:39
Mynd:  / 
Fjárframlög til samgöngu-, nýsköpunar- og velferðarmála verða aukin um marga milljarða á næstu árum samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Markmið nást um að reka ríkissjóð með góðum afgangi og að halda áfram að greiða skuldir, segir fjármálaráðherra. Óvissa um þróun á flugmarkaði og niðurstöður kjaraviðræðna getur þó sett strik í reikninginn.

Ríkisfjármálaáætlun 2020 til 2024 var kynnt í dag og verður rædd á Alþingi í næstu viku. Hún er í raun uppfærsla á fyrstu áætlun þessarar ríkisstjórnar sem kynnt var fyrir ári. Auk aukinna framlaga er jafnframt krafist aðhalds upp á fimm milljarða króna.

Mynd með færslu
 Mynd:

„Breytingarnar eru helstar þær að við sköpum svigrúm til þess að fara í enn meira átak í samgöngumálum. Við bættum við um 5,5 milljarði í þrjú ár í fyrra en setjum fjóra milljarða ofan á þá fjárhæð. Þannig að við erum í mjög miklu átaki í samgöngumálum. Við setjum líka stóraukin framlög inn í nýsköpun á komandi árum eins og rætt var um í stjórnarsáttmálanum. Við erum í átaki til þess að fjölga hjúkrunarrýmum og bætum þar í. Það koma ný framlög í marga aðra málaflokka, til dæmis til að fjármagna nýtt námsstyrkjakerfi og svona mætti áfram telja,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Auk þessa verður fæðingarorlof lengt í tólf mánuði 2020 og '21. Og nemur viðbótarkostnaðurinn af því 3,8 milljörðum króna á ári þegar það er að fullu komið til framkvæmda. Fjárveitingar til loftslagsmála verða auknar. Þá verða stofnframlög til leiguíbúða hækkuð um 2,1 milljarð á ári frá 2020. 

Helstu óvissuþættir í fjármálaáætluninni eru alþjóðleg efnahagsþróun, þróun á flugmarkaði og niðurstöður kjaraviðræðna. 

Heilbrigðis-, félags-, húsnæðis- og tryggingamál eru umfangsmest í rekstri ríkisins. Fimmtíu og sjö prósent fara í þessa málaflokka eða sex krónur af hverjum tíu. 

Gert er ráð fyrir að skuldir hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, haldi áfram að lækka og að árið 2024 verði þær orðnar lægri en þær voru árið 2007. Hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu verður tuttugu og átta prósent í árslok en verður komið niður í sautján prósent 2024. 

„Heilt yfir erum við bara að ná þeim markmiðum, sem við höfum áður sett okkur, um að reka ríkissjóð með góðum afgangi miðað við aðstæður og halda áfram að borga upp skuldir.“

En það eru líka þarna einhverjar aðhaldskröfur er það ekki?

„Jú, við þurfum að gera aðhald í ríkisrekstrinum meðal annars til þess að tryggja að við fáum hámarksnýtingu á skattfé. Það er almenn aðhaldskrafa upp á fimm milljarða en við gerum að auki kröfu um að við náum meiri árangri, til dæmis í opinberum innkaupum á vörum og þjónustu. Og síðan erum við að gera ráð fyrir því að í mannahaldi geti líka náðst ákveðin hagræðing.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Áfall ef Wow air hætti starfsemi

Meðal helstu óvissuþáttana núna er staða Wow air og kjaraviðræðurnar. Verkfallið í gær tók verulega í hjá fyrirtækjunum sem lentu í því. Framundan eru verkföll hjá sömu fyrirtækjum takist ekki að semja og þau verða lengri en sólarhringsverkfallið í gær. 

„Allt snýst þetta jú um það að ná samningum á endanum og ég ætla að leyfa mér að vera vongóður um það. Mér finnst vera sá tónn í mönnum að þeir séu af fullri alvöru að vinna að samningsgerð.“

Um helgina eru viðræður í gangi milli Icelandair og Wow. Þeim á að ljúka á mánudag. Félagið er í fullri starfsemi og flytur þúsundir farþega á dag. Fram hefur komið að á morgun er gjalddagi á láni hjá félaginu upp á 150 milljónir króna.

Í fjölmiðlum var verið að nefna ríkisábyrgð vegna Wow. Er það inni í myndinni?

„Það er ekkert samtal í gangi um neina ríkisábyrgð. En hins vegar vilja stjórnvöld gera allt annað það sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja áframhaldandi viðgang og vöxt ferðaþjónustunnar í landinu og þar með talið flugsins.“

Það yrði áfall ef að Wow myndi hætta störfum?

„Já, já, það yrði mikið áfall. Það myndi leiða til fækkunar á ferðamönnum og það myndi frestast ýmis fjárfestingaráform sem að tengjast innviðunum. Það myndi hafa áhrif til aukningar á atvinnuleysi og það yrði á allan hátt bara mjög neikvætt mál.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV