Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Auglýsir sig með mynd af Donald Trump

03.02.2019 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, og Likud-flokkur hans ætla að nota gott samband við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í kosningabaráttu fyrir þingkosningarnar þar í landi 9. apríl.

Stór auglýsingaskilti gnæfa nú yfir fjölförnum strætum í Tel Aviv þar sem sjá má þá Netanjahú og Trump takast í hendur. Yfir myndinni stendur á hebresku: „Netanjahú. Í öðrum gæðaflokki.“

Donald Trump er vinsæll í Ísrael því stefna hans í málefnum Palestínu og Íran mælist vel fyrir meðal gyðinga. Þá ákvað Trump í fyrra að færa sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem og um leið viðurkenndi hann Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael, þvert á stefnu fyrri ríkisstjórna í Bandaríkjunum.

Fréttastofa Reuters greinir frá þessu. Þar er einnig sagt frá því að talsmaður Likud-flokksins hafi ekki brugðist við fyrirspurn um hvort Hvíta húsið í Washington hafi veitt leyfi fyrir myndinni af þeim félögum, Donald og Benjamín.

Með forystu fyrir kosningar 9. apríl

Líklegast þykir að Likud-flokkurinn með Netanjahú í fararbroddi fái flest atkvæði í kosningunum í apríl. Pólitískur handstæðingur Netanjahú, fyrrverandi hershöfðinginn Benny Gantz, hefur hins vegar sótt í sig veðrið að undanförnu.

Netanjahú gæti verið ákærður fyrir misferli í embætti forsætisráðherra sem hann hefur gegnt síðan 2009. Hann neitar því að hafa gert nokkuð rangt og hefur kallað rannsókn málsins „nornaveiðar“. Saksóknari segir ekkert koma í veg fyrir að hann geti ákært forsætisráðherrann fyrir kosningar. Formleg fyrirtaka málsins verður hins vegar ekki fyrr en eftir kosningar.