Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Auglýsa nýtt skipulag fyrir brú yfir Fossvog

Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að tillaga að deiliskipulagi brúar yfir Fossvog verði auglýst. Brúin á að liggja frá uppfyllingum á Kársnesi í Kópavogi og ná landi í Reykjavík við enda flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

Brúin yfir Fossvog verður um 270 metra löng samkvæmt þeim teikningum sem verkfræðistofan EFLA hefur unnið um verkefnið. Á brúnni verða hjóla- og göngustígar og akrein fyrir almenningssamgöngur. Gert er ráð fyrir landfyllingum í báða brúarendana og að efni í uppfyllingarnar komi að mestu af framkvæmdasvæðum innan sveitarfélaganna.

Markmiðið með því að leggja brú yfir Fossvog á milli Reykjavíkur og Kópavogs er að styðja við vistvæna samgöngukosti á svæðinu ásamt því að stytta ferðalengdir, dreifa umferðarálagi og styðja við aðra ferðamáta en einkabílinn.

Í tillögunni sem samþykkt hefur verið að auglýsa segir: „Ný brú verður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og almenningssamgöngur. Innan deiliskipulagssvæðisins er gert ráð fyrir brú og landfyllingum með áningarstöðum, stígum og akreinum fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi, sem tengjast stíga og gatnaneti sveitarfélaganna.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Brúin yfir Fossvog er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum og almenningssamgöngum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í minnihluta borgarstjórnar, þau Eyþór Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir, bóka með tillögunni að mikilvægt sé að brúin nýtist sem best fyrir fjölbreyttan ferðamáta. „Samflot 3ja og fleiri [í bíl] er liður í að minnka álag á gatnakerfið. Rétt væri að kanna áhrif þess að leyfa samflot í tengslum við brú yfir Fossvog hvað varðar álag í umferðarmódeli. Hér er tækifæri til að hvetja fólk til samflots með jákvæðum hætti.“ Sjálfstæðisfólkið bendir eining á að ekki liggi fyrir hvernig staðið verður að fjármögnun brúarinnar.

Fulltrúar úr meirihlutanum í borgarstjórn, þau Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Pírati, Kristín Soffía Jónsdóttir og Hjálmar Sveinsson Samfylkingunni og Gunnlaugur Bragi Björnsson úr Viðreisn, benda á að brúin hafi frá upphafi einungis verið hugsuð fyrir vistvæna ferðamáta. „Flutningsgeta hennar verður mikil. Ljóst er að akreinar fyrir Borgarlínu, hjólandi og gangandi vegfarendur geta flutt mun fleira fólk en akreinar fyrir bíla.“

Kópavogsbær hefur þegar samþykkt að auglýsa tillöguna að deiliskipulaginu. Það var gert 9. október síðastliðinn.