Auðvelt að misnota kerfi þingmanna

13.02.2018 - 07:54
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Það er auðvelt að misnota það kerfi sem Alþingi hefur komið upp til að endurgreiða þingmönnum aksturskostnað, segir Brynhildur Pétursdóttir, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar. Hún segir að nauðsynlegt sé að auka gagnsæi um greiðslur til þingmanna.

Brynhildur lagði á sínum tíma fram frumvarp á Alþingi um að greiðslur til þingmanna yrðu gerðar opinberar, og af þeim svipt þeirri leynd sem nú ríkir yfir þeim. „Mér fannst merkilegt, bæði hvað maður gat sem þingmaður átt rétt á miklu, og hvað það var lítið eftirlit, það er í raun enginn sem er yfirmaður þingmanna,“ sagði Brynhildur í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Það var auðvelt að misnota þetta og það á ekki að vera þannig. Ef einhverjir eiga að umgangast ríkissjóð af virðingu þá eru það þingmenn.“

Brynhildur rifjaði upp að árið 2013 hefði hún farið í ferð um kjördæmi sitt á bílaleigubíl frá Alþingi. Þá hefði hún notað tækifærið og farið á Borgarfjörð eystri. Þegar hún hefði spurt þingið hvernig hún ætti að gera upp einkanot á bílnum hefði fátt orðið um svör, aðeins sagt að hún yrði að eiga það við eigin samvisku. Brynhildur ákvað þá að borga helming kostnaðarins við bílaleigubílinn sjálf. Hún sagði eftirlitið hafa verið lítið og hún hafi upplifað þetta þannig að þingmenn hefðu fáránlegan aðgang að ríkissjóði.

Koma eigi í veg fyrir fjárhagslegan ávinning

Brynhildur sagðist halda að ef tækifæri séu til að misnota kerfi geri einhverjir það, þó svo langflestir þingmenn séu heiðarlegir. „Það er svo ótrúlega einfalt að gera kröfu um að þingmenn noti bílaleigubíla. Þá kemurðu í veg fyrir að einhver fari að skjótast eitthvert og taka í höndina á einhverjum af því að hann getur fengið 50 þúsund kall í vasann fyrir það.“

Brynhildur segist hafa velt því fyrir sér hver ætti að borga hvað þegar hún var á þingi. Til dæmis hvort Alþingi eða flokkur eigi að greiða fyrir ferðir á fundi sem flokkarnir halda. „Ef það er formannskjör eða prófkjörsslagur: Hver á að greiða það? Er hægt að senda reikninginn bara á Alþingi?“

„Einu sinni keyrði ég austur, fram og til baka, á einum degi á bílaleigubíl, þá var ég að fara á opnun. Það kostaði 25 þúsund. Ég man hvað mér fannst þetta í rauninni ódýrt. Ef ég hefði farið á eigin bíl hefði það kostað Alþingi helmingi meira og ég hefði fengið peninginn í vasann, sem var þá allt í einu orðið hvati fyrir mig að skottast eitthvað á laugardegi. Í staðinn fyrir að ef ég tek bílaleigubíl þá fer ég af því að ég raunverulega vill fara. Mig grunar að það myndi fækka aðeins ferðunum. En það þarf auðvitað ekkert að vera. En ég held reyndar að Ásmundur [Friðriksson] sé bara mjög duglegur að fara um sitt kjördæmi en þá gerir hann það bara á bílaleigubíl.“

Samnýttu jeppa

Brynhildur kannaðist ekki við bílaleigubílarnir væru slæmir. Hún sagði að í sinni tíð hefðu þingmenn farið fjórir saman á bílaleigubíl og verið á góðum jeppum.

Brynhildur sagði að auka þyrfti gagnsæi þannig að fólk vissi í hvað peningurinn færi og að tryggja ætti að farnar yrðu sem hagkvæmastar leiðir í rekstri þingsins.