Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Auður verðlaunuð fyrir Ör

Mynd: RÚV / RÚV

Auður verðlaunuð fyrir Ör

08.02.2017 - 20:43

Höfundar

Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í kvöld í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsögu sína Ör. Í þakkarræðu sinni talaði hún meðal annars um það að bókmenntir væru elsta útflutningsvara þjóðarinnar og sú eina sem væri óháð gengissveiflum. Bók geti breytt lífi manns.

Hún gerði tungumálið einnig að umtalsefni í ræðu sinni og tók undir með Þorsteini Gylfasyni að ekki væri hægt að segja allt á ensku, til dæmis væri sérstaða íslenskunnar að eiga lýsingarorðið skárri. 

Þess utan noti Íslendingar einir þjóða sama orðið yfir heimilið og veröldina alla; heima og heimur, sem megi skilja sem svo að gjörvallur heimurinn sé heimili okkar. „Af því að við erum hinir og hinir eru við. Það verður aldrei of oft minnt á það.“ 

Að lokum talaði hún um söguna sem hún heldur mikið upp á, söguna af ljósberunum Gísla, Eiríki og Helga sem reyndu að bera ljósið inn í bæinn sinn í lopahúfunum sínum. Henni hafi alltaf þótt þetta ákaflega falleg myndlíking fyrir skáldskap. „Og fyrir sköpun sem einskonar ljóstillífun sem þurfi bara ímyndunarafl og sólarljós til að búa til eitthvað úr engu.“

Skáldsagan Ör segir frá Jónasi Ebeneser, 49 ára fráskilnum, valdalausum og gagnkynhneigður karlmanni. Gagnrýnandi Viðsjár sagði um bókina að hún væri „listilega vel skrifuð, áferðarfalleg og djúpvitur, og tekur á málefnum sem höfða til samvisku lesandans.“  

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Auður, Hildur og Ragnar verðlaunuð

Innlent

Ragnar verðlaunaður fyrir Andlit norðursins