Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Auðræði tekur við af lýðræði

28.10.2013 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir ríku verða stöðugt ríkari, millistéttin stendur í stað og fátækt eykst. Auðræði er vaxandi vandamál í heiminum og ógnar lýðræðinu að margra mati.

Þeir ríku vilja meira, sífellt meira. Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að nú standi yfir tilraun á Vesturlöndum sem miðar að því að breyta samfélagsgerðinni í átt til aukins auðræðis. Þetta felur í sér að þeir allra ríkustu eru víða að taka til sín sífellt stærri hluta þjóðartekna á sama tíma og hagur millistéttarinnar og lægri tekjuhópa stendur í stað eða versnar. Víðast reyna ríkisstjórnir að skera niður velferðarútgjöld og auka gjaldtöku fyrir samfélagsþjónustu ýmsa, með auknum byrðum fyrir venjulegar fjölskyldur.

Fjárfestingabankinn Credit Suisse hefur birt skýrslu um skiptingu auðs í heiminum. Þar kemur fram að misskipting auðs er hvergi meiri en í Rússlandi. Hundrað og tíu einstaklingar í Rússlandi eiga þrjátíu og fimm prósent af þjóðarauðnum. Nítíu og fjögur prósent þjóðarinnar eiga milljón eða minna. Ástandið er ekki alveg jafn slæmt í Bandaríkjunum en þar hafa menn miklar áhyggjur af misskiptingu auðs og áhrifum þess á lýðræðið. Christian Caryl, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum, segir til dæmis í Foreign Policy að auðræði sé mesta ógnin við lýðræði.

Misskiptum auði fylgja misskipt völd. Í lok síðustu aldar fengu örfáir vel tengdir viðskiptajöfrar í Rússlandi gríðarleg auðæfi við einkavæðingu Borisar Jeltsíns, ekki síst við olíuauð landsins. Þessir auðjöfrar voru ekki feimnir við að sýna mátt sinn og megin. Þeir fjármögnuðu endurkjör Jeltsíns í forsetaembætti árið 1996, réðu miklu í ráðherravali og stjórnuðu í raun landinu. Þessir auðjöfrar gengu undir heitinu ólígarkar, sem fengið er úr grísku og þýðir í raun fámennisstjórn. Einn þessara manna var hinn nýlátni Boris Berezovsky og hann var arkítektinn að stjórnmálaferli KGB foringjans Vladimírs Pútíns. Þegar Berezovsky var búinn að koma honum í forsetastól var Pútín reyndar fljótur að snúast gegn honum. Mikhail Khodorkovsky fór sömu leið og hefur nú dúsað í áratug í fangelsi. Aðrir auðjöfrar hafa tekið við og margir þeirra eru fyrrum KGB-menn sem eiga frama sinn og auð Pútín að þakka. Einn þessara KGB-manna er Igor Sechin sem stýrir stærsta olíufyrirtæki landsins. Hann er talinn næst valdamesti maður Rússlands, oft kallaður Svarthöfði og viðsjárverðasti maður veraldar í rússneskum fjölmiðlum.

Auðræði er vaxandi vandamál um allan heim. Í Kína liggur leiðin til valda og auðs í gegnum Kommúnistaflokkinn. Einræði flokks og markaðsvæðing er hættuleg blanda. Forréttindi valdastéttarinnar í Kína eru á köflum ævintýraleg. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að þessu risaveldi er stjórnað af sjö manna stórnarnefnd miðstjórnar Kommúnistaflokksins, Politburo. Þessir sjömenningar og fjölskyldur þeirra njóta gríðarlegra forréttinda og völd þeirra yfir einu stærsta efnahagskerfi heimsins eru nánast hömlulaus. Efnahags- og stjórnmálavald rennur saman í vaxandi valdaflóð.

Auðmennirnir og stjórnmálaelítan eru fjölmennari á Vesturlöndum en þróunin er í sömu átt. Eins og hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz bendir á hirti eitt prósent bandarísku þjóðarinnar tuttugu og tvö prósent af þjóðartekjum landsins á síðasta ári. Núll komma eitt prósent þjóðrarinnar tók til sín ellefu prósent þjóðarteknanna. Nítíu og fimm prósent af auknum þjóðartekjum frá 2009 hafa runnið í vasa ríkasta eins prósents þjóðarinnar. Miðstéttin í Bandaríkjunum hefur staðið í stað í aldarfjórðung. Auðstéttinni hefur tekist að hafa gríðarleg áhrif á lagasetningu og stjórnmálamenn með lobbýisma og fjármögnun á sífellt dýrari kosningabaráttu. Íhaldsmenn á borð við Koch bræður eyða ævintýralegum upphæðum í þessu skyni og sama má segja um demókrata eins George Soros og Tom Steyer. Mestu skipta þó alþjóðlegir auðhringir og samtök sem ráða miklu í lagasetningu. Nýleg könnun sýnir að fjörutíu prósent af framlögum til kosningabaráttu vestanhafs koma frá einum hundraðasta úr prósenti landsmanna. Almenningur er að missa trú á lýðræðinu. Louis Brandeis segir í bók sinni, The Great Escape, að almenningur sé í raun búinn að tapa kosningarétti sínum. Auðræði sé að taka við af lýðræði.