Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Atvinnumálin efst á baugi á Skagaströnd

Myndir teknar með dróna.
Íbúum á Skagaströnd fjölgaði um 3% eða um 14 íbúa.  Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Atvinnumálin eru í brennidepli á Skagaströnd, segir sveitarstjórinn um umræðuna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Fólksfækkun hefur orðið á síðustu árum og íbúar vilja efla atvinnulífið til að fjölga íbúum. Það er þörf á bæði fleiri og fjölbreyttari störfum.

Tveir listar bjóða fram á Skagaströnd. Það eru Ð-listinn - Við öll, sem Guðmundur Egill Erlendsson leiðir og H-listinn - Skagastrandarlistinn sem Halldór Gunnar Ólafsson leiðir. Magnús B. Jónsson var endurráðinn sveitarstjóri eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Atvinnumálin í forgangi

„Það er eins og ævinlega, atvinnumálin,“ segir Magnús um helstu málin fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Það vantar fleiri og fjölbreyttari störf. Hann telur uppbyggingu atvinnulífsins á Skagaströnd forsendu þess að laða að fleira fólk.

Fólksfækkun hefur verið viðvarandi í sveitarfélaginu síðustu ár en þó hefur hægt á henni. „Þetta er sveiflukennt en það munar mikið um hvern og einn í svo fámennu sveitarfélagi,“ segir Magnús. Húsnæðismál eru einnig í umræðunni í sveitarfélaginu. Magnús segir að eins og staðan er vanti frekar atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði til að styrkja atvinnulífið.

Hann segir að íbúar hafi einnig áhuga á umhverfismálum og þjónustu í sveitarfélaginu. Í sambandi við umhverfismálin sé það aðallega umgengni um umhverfið, að halda sveitarfélaginu hreinu og fallegu.

Sameiningarmál pólitísk áskorun

Magnús segir að samstarf innan sveitarstjórnarinnar hafi gengið vel og býst við að svo verði áfram. „Pólitísk áskorun næstu sveitarstjórnar er umfjöllun um sameiningu sveitarfélaganna og hvernig á að takast á við það,“ segir Magnús. „Samstarfsverkefni milli sveitarfélaga fara í uppnám sama hvernig það fer,“ bætir hann við.

Ýmis verkefni bíða þeirrar sveitarstjórnar sem tekur við. Mikil uppbygging er í kringum höfnina, „það er meðal annars verið að byggja smábátahöfn og það er góð samstaða um hana að því er ég best veit,“ segir Magnús. Hann segir að einnig sé búið að gera áætlun um nýjan veg, frá hringveginum austan Blönduóss að Þverárfjallsvegi og inn á núverandi Skagastrandarveg. Vegurinn skiptir Skagstrendinga miklu máli. Fráveitumál gætu líka verið forgangsmál á næsta kjörtímabili. Nokkuð langt er liðið síðan átti að klára þau.

Aðspurður hvort hann sækist eftir starfi sveitarstjóra áfram segist Magnús ekki geta svarað því strax. Hann hefur gegnt stöðunni frá 1990.

 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður