Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Áttu frekar að slíta stjórnarsamstarfi

19.01.2013 - 16:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Vinstri-græn hefðu frekar átt að slíta stjórnarsamstarfinu en að víkja frá stjórnarsáttmála með því að láta hægja á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta sagði Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri-grænna, í þættinum Vikulokunum í dag.

„Mér finnst þessi ákvörðun vera afskaplega skrýtið og reyndar ekki réttlætanleg, vegna þess að það var ekki ríkisstjórnin sem sótti um aðild að Evrópusambandinu. Það var Alþingi. Það var ríkisstjórnin sem ákvað að hægja á þessu ferli, frysta það eða hvað þeir vilja kalla það í sínum spuna. Það var ekki Alþingi. Svo ég sé enga heimild til að gera þetta." Sagði Þráinn og kvaðst hafa ofnæmi fyrir slíkum spuna.

Þráinn sagðist hafa valið að starfa með Vinstri-grænum á þingi vegna þess að flokkurinn hafi verið aðili að stjórnarsáttmála sem kvað á um að sækja um aðild að Evrópusambandinu í þeim tilgangi að ná fram samningi og síðan þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Um þetta hafi vissulega verið deilur en Þráinn sagðist sannfærður um að margir sem hafi viljað lýðræðislega ákvarðanatöku um málið hafi kosið Vinstri-græn af þessum ástæðum. Það væru svik á stjórnarsáttmálanum að stöðva aðildarviðræður. „Mér finnst allt í lagi að einstakir þingmenn séu með læti og uppistand, samanber Jón Bjarnason og svoleiðis. Það er ekki stefna neins flokks. En þegar heill flokkur stendur ekki við það sem sagt er finnst mér það mjög alvarlegt mál og því alvarlegra þar sem ég á að teljast þar innan veggja," sagði Þráinn. „Ef það var komið það mikið óþol í þetta stjórnarsamstarf að flokkurinn, sem sagt VG í sínum óendanlega vísdómi, gat ekki lifað lengur við þennan stjórnarsáttmála óbreyttan og staðið við hann þá eðlilega hefði átt að slíta stjórnarsamstarfi."