Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Átti hlut í Wintris þegar kröfunum var lýst

03.04.2016 - 20:29
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, átt hlut í aflandsfélaginu Wintris sem skráð er á Bresku jómfrúareyjum þegar kröfum í þrotabú föllnu bankanna var lýst. Þetta er hægt að lesa út úr tímalínu sem birt var á vef ruv.is eftir að umfjöllun Kastljós um Panamaskjölin lauk. Ekkert bendir til þess að upphafleg eigendaskráning á Wintris hafi verið byggð á misskilningi og engar upplýsingar eru um að prókúra Sigmundar Davíðs hafi verið afturkölluð.

Kastljós sýndi í kvöld ítarlega umfjöllun um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við aflandsfélög í skattaskjólum og við lögmannsstofuna Mossack Fonsecka sem er ein sú stærsta í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla. Þátturinn var unninn í samstarfi við Reykjavík MediaAlþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddestuche Zeitung

Mynd: Rúv / Kastljós

Á tímalínu sem gerð var eftir þáttinn til að skýra Wintris-málið og umfjöllunina um Panamaskjölin enn frekar kemur fram að frestur til að lýsa kröfum í þrotabú Landsbankans hafi runnið út 31. október. Wintris lýsti kröfum í þrotabúið upp á 174 milljónir. 

Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú Glitnis rann út 10. desember. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðamaður forsætisráðherra, upplýsti fjölmiðla daginn eftir Facebook-færslu eiginkonu Sigmundar Davíðs þar sem upplýst var um tilvist Wintris að félagið hefði lýst kröfum í þrotabúið upp á eina milljón franka.

Tímalínan leiðir enn fremur í ljós að fresturinn til þess að lýsa kröfum í þrotabú Kaupþings rann út 31. desember. Upplýst var að Wintris hefði lýst tveimur kröfum upp á rúmar 43 milljónir og eina upp á 134 milljónir. 

Fram kom í Kastljósi í kvöld að Sigmundur Davíð hefði selt hlut sinn í Wintris til eiginkonu sinnar fyrir 1 dollara á gamlársdag 2009 - daginn áður en ný skattalög tóku gildi sem sett voru til höfuðs aflandsfélögum.

Mynd: Kastljós / RÚV

Sigmundur brást illa við þegar hann var spurður, óundirbúinn, um félagið Wintris í þætti sænska ríkissjónvarpsins.  Viðtalinu lauk með því að Sigmundur gekk út.  Forsætisráðuneytið fór þess á leit við SVT að umrætt atriði yrði ekki birt.

Mynd: RÚV / Kastljós