Átti enga aðkomu að samningnum

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, bar vitni í dag á öðrum degi aðalmeðferðar í Vafningsmálinu. Hann segist ekki hafa verið í neinum samskiptum við bankann á nokkrum tíma og enga aðkomu átt að lánasamningum sem er kært vegna. Hann hafi aðeins verið fenginn til að skrifa undir veðskjöl.

 Saksóknari spurði Bjarna um umboð sem hann fékk til að undirrita veðskjöl og lýsti Bjarni aðkomu sinni að Vafningsmálinu.

„Mín aðkoma að þessu máli var eingöngu takmörkuð við það að mæta fyrir hönd þessara hluthafa til að skrifa undir veðskjölin. Það þýðir að ég var í engum samskiptum við bankann á nokkrum tíma, átti aldrei aðkomu að þeim lánasamningum sem hér liggja til grundvallar, hafði engar upplýsingumar um þær eignir sem fóru inn í þessi félög eða nokkuð af því tagi,“ sagði Bjarni í viðtali eftir að hann bar vitni í dag. „Það þýðir að ég ligg ekki undir grun um neitt misjafnt og hef því nákvæmlega ekkert að fela.“

„Veistu ég er nú ekki mættur hingað í einhverja opinbera yfirheyrslu er það,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður hvort hann hefði vitað hvaða afleiðingar það hefði haft hefði lánið ekki verið veitt á sínum tíma. „Ég kom hingað til að bera vitni í þessu máli og við rannsókn þessa máls hef ég greint frá því hver mín aðkoma var og mér finnst raunar mjög óviðeigandi að ég látinn svara spurningum sem sem eru enginn hluti af þessu dómsmáli. Og þar sem gefið er í skyn að ég búi yfir einhverjum upplýsingum sem máli skipta í þessu dómsmáli.“

Þáttur gat ekki borgað lán hjá Morgan Stanley

Um tugur manna bar vitni í Héraðsdómi í dag. Meðal þeirra var íslenskur starfsmaður Morgan Stanley-bankans í Bretlandi.

Félagið Þáttur International, sem saksóknari telur vera hluta af Milestone, hafði fengið tíu milljarða króna lán hjá Morgan Stanley. Veð fyrir láninu var sjö prósenta hlutur í Glitni eftir því sem fram kom í þinghaldi í dag. Þegar lánið var gjaldfellt gat Þáttur ekki borgað og fékk lánað hjá Glitni, í gegnum Milestone, samkvæmt saksóknara. Starfsmaður Morgan Stanley sagði að ef Þáttur hefði ekki greitt skuld sína við bandaríska bankann 8. febrúar hefði verið gengið að bréfunum og þau sett á markað. Því hefur verið haldið fram að það hefði valdið falli á verði hlutabréfa í Glitni.

Steingrímur segist lítið hafa fengið að vita

Fram eftir degi voru teknar skýrslur af stjórnendum Milestone. Steingrímur Wernersson, sem átti fjörutíu prósenta hlut í Milestone, og sat í stjórn félagsins, talaði um að sér hefði verið haldið utan við mál Milestone, hann hefði lítið fengið að vita og benti í því samhengi meðal annars á bróður sinn, Karl Wernersson. Karl átti að bera vitni en mætti ekki, og verður boðaður með formlegri vitnakvaðningu frá dómara á fimmtudagsmorgun.

Steingrímur talaði um að Vafningur hefði verið leynifélag sem hann hefði ekkert vitað um, hann hefði fyrst lesið um viðskiptin í fjölmiðlum. Hann fullyrti einnig að hann hefði ekki verið á fundi sem bókað var í skjölum að hann hefði mætt á. Á eftir Steingrími settust í vitnastólinn starfsmenn Milestone. Þeir voru mikið spurðir um flókin eignatengsl þeirra fjölmörgu félaga sem koma beint og óbeint að Vafningsmálinu.

Þór Sigfússon, fyrrverandi forstjóri tryggingafélagsins Sjóvár, bar einnig vitni og var spurður um hvað hann hefði vitað um lánveitingar til að bjarga dótturfélagi Milestone undan skuldinni við Morgan Stanley. Sjóvá var á þessum tíma hluti af Milestone-samsteypunni.

Mikið spurt um hæfi fyrrverandi lögreglumanns

Í lok dags kom fyrir dóminn fyrrverandi lögreglumaður sem er sakaður um að hafa brotið af sér í starfi hjá sérstökum saksóknara. Meint brot hans og annars starfsmanns á þagnarskyldu hafa verið kærð til Ríkissaksóknara. Mennirnir eru sakaðir um að hafa látið þrotabúi Milestone í té upplýsingar sem þeim var ekki heimilt að veita, en þeir unnu mánuðum saman bæði fyrir sérstakan saksóknara og þrotabúið.

Talsverður þungi var í skýrslutökunni yfir lögreglumanninum fyrrverandi og verjendur stjórnenda Glitnis í Vafningsmálinu spurðu hann ítrekað spurninga sem tengdust hæfi hans, í samhengi við vinnu hans fyrir þrotabú Milestone. Lögreglumaðurinn bar hins vegar fyrir sig að þurfa ekki að svara spurningum sem kynnu að varpa sök á sig í málinu sem Ríkissaksóknari hefði til meðferðar. Verjendur í Vafningsmálinu kröfðust frávísunar frá Héraðsdómi vegna þess að þeir töldu lögreglumennina hafa verið vanhæfa til að rannsaka Vafningsmálið en þeirri kröfu var hafnað í haust.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi