Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Átta mánuðir fyrir þátt í innbrotahrinu

01.06.2018 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tuttugu og þriggja ára karlmaður, sem handtekinn var í mars, grunaður um aðild að umfangsmikilli innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu, var sakfelldur fyrir fleiri tugi innbrota í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku og dæmdur til átta mánaða fangelsisrefsingar. Tveir til viðbótar sitja enn í gæsluvarðhaldi.

Tveir aðrir hafa sætt farbanni undanfarnar vikur en það rann út í dag. Ákveðið var að framlengja það ekki, að sögn Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Sá yngsti hinna grunuðu hlaut skilorðsbundna frestun á ákæru í apríl sökum ungs aldurs, en hann var á sautjánda ári þegar glæpirnir voru framdir. Hann hefur þegar verið sendur aftur til heimalands síns. Allir mennirnir eru erlendir ríkisborgarar.  

Líklega skipulögð glæpastarfsemi

Tilkynnt var um óvenjumörg innbrot á heimilum á höfuðborgarsvæðinu snemma árs. Innbrotaaldan hófst fyrir áramót og stóð fram í febrúar. Oftast var brotist inn í einbýlishús, og þá sérstaklega í ákveðnum hverfum í Garðabæ, Kópavogi og Grafarvogi.  

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að líklega væri um skipulagða starfsemi að ræða. Um miðjan mars voru sex menn handteknir og úrskurðaðir í varðhald. Kom í ljós að um tvo ólíka hópa var að ræða – manninn sem dæmdur var á föstudaginn ásamt þeim sextán ára annars vegar, og hins vegar hina fjóra, sem allir eru á þrítugsaldri.  

Þrír mannana ákærðir  

Dæmt var í máli fyrsta sakborningsins á föstudaginn í síðustu viku. Hann játaði brot sín skýlaust og var dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar.  

Samkvæmt Skúla er líklegt að hinum dæmda verði vísað úr landi að afplánun lokinni og hugsanlega verði farið fram á að hann sæti varanlegu endurkomubanni.

Maðurinn er ekki íslenskur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið. Hann er einnig eftirlýstur í tveimur öðrum löndum sem lögregla telur að muni mögulega sækjast eftir framsali hans.  

Gæsluvarðhald hefur þá verið framlengt yfir tveimur mannana og ákærur gefnar út á hendur þeim báðum. Vonast lögreglan til að dómur falli í þeirra málum fyrir júnílok. Fyrirtaka fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir helgi.  

Innbrotum fækkað um helming 

Frá handtöku mannanna hefur innbrotum á heimili á höfuðborgarsvæðinu fækkað mikið. Í febrúar voru þau 52, en í mars ekki nema 26 og í apríl 20. Skúli telur líklegt að tölur maímánaðar falli innan sömu marka. 

Það séu að sjálfsögðu enn innbrot á heimili, en „ekki með svona skipulegum hætti eins og þessir aðilar voru að herja á okkur“.  

Leit lögreglu að eigendum þýfisins sem fannst í fórum sakborninganna hefur að sögn Skúla gengið ágætlega en þónokkuð margir hlutir eru þó enn í óskilum hjá lögreglu. Fólk sem telur sig eiga tilkall til þeirra er hvatt til að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.