Átta leikir í enska boltanum í dag

epa06140157 Burnley Stephen Ward (C) celebrates scoring during the English Premier league game between Chelsea and Burnley at Stamford Bridge stadium in London, Britain, 12 August 2017.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA EDITORIAL USE ONLY. No use with
 Mynd: EPA

Átta leikir í enska boltanum í dag

26.12.2017 - 06:51
Eins og svo oft áður fá aðdáendur enska boltans eitthvað fyrir sinn snúð þessi jólin. Leikmenn fá rétt frí á aðfangadag og jóladag eftir leiki á Þorláksmessu, því næsta umferð hefst í dag með átta leikjum. Tottenham og Southampton ríða á vaðið á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley.

Heimamenn hafa á að skipa einhverjum mesta markaskorara sem England hefur alið, Harry Kane. Kane var markahæstur í deildinni síðustu tvö tímabil, og á góðri leið með að ná þriðja gullskónum í röð. Hann hefur skorað 36 mörk í deildinni árið 2017, sem er metjöfnun á almanaksári. Þá hefur hann skorað 53 mörk með landsliði og félagsliði á árinu, einu marki minna en Lionel Messi sem hefur skorað flest mörk á árinu.

Skömmu eftir að flautað verður til leiksloka á Wembley hefjast sex leikir í deildinni. Þar ber ef til vill hæst viðureign Manchester United og Burnley. Manchester-liðið er í öðru sæti deildarinnar, á eftir Manchester City. Burnley hefur komið mörgum á óvart það sem af er tímabili, en liðið stendur sem er í sjöunda sæti deildarinnar, þremur stigum frá fjórða sæti.

Á meðan Jóhann Berg Guðmundsson sparkar bolta í Manchester fer Gylfi Sigurðsson, félagi Jóhanns í íslenska landsliðinu, til Birmingham. Þar tekur WBA á móti Everton. Everton hefur verið á fínu skriði eftir að Sam Allardyce tók við stjórnartaumunum á hliðarlínunni. Að sama skapi hefur lítið gengið hjá WBA sem situr í næst neðsta sæti deildarinnar.

Englandsmeistarar Chelsea taka á móti Brighton, Bounemouth fær West Ham í heimsókn, Stoke fer til Huddersfield og Watford og Leicester mætast í Lundúnum. Leikjum dagsins lýkur í kvöld með viðureign Liverpool og Swansea klukkan 17:30. Swansea vermir botnsæti deildarinnar með 13 stig eftir 19 leiki, en Liverpool er í fjórða sæti með 35 stig.