Átta íslenskar fuglategundir á válista

29.10.2015 - 22:17
Mynd: photoeverywhere.co.uk / http://photoeverywhere.co.uk
Átta íslenskar fuglategundir voru í dag færðar á alþjóðlegan válista. Aldrei hafa jafnmargar íslenskar tegundir verið settar á listann. Lundi gæti beinlínis lent í útrýmingarhættu ef ástandið lagast ekki, segir fuglafræðingur.

Listi Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, IUCN, er stærsti upplýsingabanki um verndarstöðu lífvera í heiminum, og stjórnvöld og alþjóðastofnanir styðjast jafnan við hann í aðgerðum og lagasetningu. Listinn tekur til stöðu hverrar tegundar á heimsvísu. Tegundum á válista er raðað í fjóra áhættuflokka, frá nokkurri hættu til bráðrar útrýmingarhættu.

Haförn var eitt sinn eini íslenski fuglinn á válista, en bætt staða hans varð til þess að hann datt út af listanum fyrir áratug.

Fyrir á válista voru þrír íslenskir fuglar: hávella, jaðrakan og fjöruspói. Átta nýjar íslenskar fuglategundir bættust á válistann í dag.

Sex tegundir í fyrsta áhættuflokki af fjórum
Álka telst vera í nokkurri hættu, en meirihlutinn af öllum álkum í heiminum er hér á landi.

Rauðbrystingur fer í sama áhættuflokk. Hann verpir ekki hér, en reiðir sig á Ísland sem viðkomustað í farflugi.

Tjaldur, sem telur gríðarlegan fjölda einstaklingar á heimsvísu, er líka nýr á listanum. Óvíst er hver staða íslenska stofnsins er.

Sama á við um þúfutittling. Þúfutittlingum í heiminum hefur fækkað um fjórðung síðustu ár, og heldur áfram að fækka.

Skógarþröstur er einnig í þessum áhættuflokki, enda hefur skógarþröstum fækkað nokkuð í Evrópu.

Æðarfugl er líka nýr á listanum, þótt hingað til hafi ekki sést mikil hnignun í íslenska stofninum.

Tvær tegundir í öðrum áhættuflokki af fjórum
Flórgoði lendir hins vegar í næsta áhættuflokki fyrir ofan, yfirvofandi hættu. Flórgoða hefur fækkað mikið í Norður-Ameríku, en fjölgar á Íslandi.

Lundi telst líka í þessum áhættuflokki, en Ísland er ein helsta varpstöð hans í heiminum, og hér skortir fæðu. Lundi gæti beinlínis lent í útrýmingarhættu ef ástandið batnar ekki, segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Framtíðin ekki björt
Ástand íslenska lunda- og álkustofnsins vegur mjög þungt í stöðu tegundanna á heimsvísu. Kristinn segir að þótt hinar tegundirnar teljist íslenskar sé ekki þar með sagt að ástandið hér sé slæmt, nema fyrir sumar þeirra. Framtíð margra fuglategunda er ekki björt, því Kristinn segir að búast megi við að nýjar tegundir hópist inn á válistann á næstu árum.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi