Átta handteknir vegna hryðjuverka á Sri Lanka

21.04.2019 - 15:57
Erlent · Asía · Sri Lanka
epa07519704 Police and locals inpect the damage and fataliaties in Katuwapitiya St. Sebastian church in Negombo near Colombo, Sri Lanka, 21 April 2019. According to police at least 207 people were more than 400 injured in a coordinated series of blasts during the Easter Sunday service at churches and hotels.  EPA-EFE/STR
Lögregla rannsakar vettvang sprengjuárásar í Katuwapitiya St. Sebastian kirkjunni í Negombo. Mynd: EPA-EFE - EPA
Átta hafa verið handteknir á Sri Lanka vegna rannsóknar á sjö sprengjuárásum á hótel og kirkjur í morgun. Tvö hundruð, hið minnsta, féllu og 450 eru særð. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að öfgamenn hafi framið hryðjuverkin.

AFP fréttastofan hefur eftir Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra landsins, að það fólk sem liggi undir grun sé allt frá Sri Lanka en að verið sé að kanna möguleg tengsl þeirra við öfgamenn í öðrum löndum. Forsætisráðherrann sagði að lögreglu hefði verið kunnugt um mögulegar hryðjuverkaárásir en að hvorki hann né ríkisstjórnin hafi verið upplýst um málið og að ekki hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir þær, að því er Guardian greinir frá. Ríkisstjórnin ætli að rannsaka hvers vegna lögregluyfirvöld gripu ekki til varúðarráðstafana. 

Sprengjuárásir voru gerðar á þrjár þéttsetnar kirkjur þar sem páskamessur stóðu yfir, í höfuðborginni Colombo og borgunum Negombo og Batticaloa, og í og við fjögur hótel í Colombo.  

epa07519020 Sri Lankan police investigate the scene after an explosion hit Shangri-La Hotel in Colombo, Sri Lanka, 21 April 2019. According to the news reports at least 138 people killed and over 400 injured in a series of blasts during the Easter Sunday service at St Anthony's Church in Kochchikade,Shangri-La Hotel and Kingsbury Hotel with many more places.  EPA-EFE/M.A. PUSHPA KUMARA
Árás var gerð á Shangri-La hótelið í Colombo. Mynd: EPA-EFE - EPA

Maður sprengdi sig þegar lögregla réðist inn í íbúðarhús í úthverfi höfuðborgarinnar. Yfirvöld hafa lýst því yfir að hinar árásirnar hafi líklega verið gerðar af sjálfsmorðssprengjumönnum.

Útgöngubann er í gildi um alla eyjuna þar til á morgun. Stjórnvöld hafa lokað fyrir helstu samfélagsmiðla og skólar verða lokaðir næstu daga.

Utanríkisþjónustan hefur beðið þá Íslendinga sem staddir eru á Sri Lanka að láta aðstandendur vita af sér. Þeim sem þurfa á aðstoð að halda er bent á að hafa samband við neyðarsíma borgaraþjónustunnar, +354 545-0-112. Nokkrir Íslendingar hafa þegar látið vita að þeir séu óhultir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi