Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Átta hafi sætt kynferðisofbeldi

02.11.2012 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Kaþólska kirkjan á Íslandi þaggaði niður ásakanir um kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn nemendum Landakotsskóla um áratugaskeið. Átta manns sem komu fyrir rannsóknarnefndina segjast hafa sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu kennara og skólastjóra Landakotsskóla.

Þetta kom fram á blaðamannafundi rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar sem haldinn var í morgun. Þrjátíu manns sem voru nemendur í Landakotsskóla eða í sumardvöl á vegum kaþólsku kirkjunnar komu fyrir nefndina. Af þeim sögðust átta hafa sætt kynferðslegu ofbeldi. Þetta gerðist á tímabilinu 1954 til 1990. Þá sögðust 27 af þessum 30 ýmist hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi eða orðið vitni að andlegu ofbeldi. Þær frásagnir ná allt fram til ársins 2003. Þessu til viðbótar skýrðu 9 aðstandendur fyrrverandi nemenda á þessu tímabili frá slíkri reynslu eigin barna eða annarra.

Nefndin telur að tilefni sé til að nafngreina tvo gerendur í skýrslunni þrátt fyrir þá almennu reglu að gera slíkt ekki. Það eru séra Georg, fyrrverandi skólastjóri Landakotsskóla og Margrét Muller, kennari við skólann. Í skýrslunni eru afar ógeðfelldar lýsingar á því hvernig þau níddust kynferðislega á börnum af báðum kynjum. Rannsóknarnefndin telur sér þó skylt að undirstrika að það hafi ekki verið hlutverk nefndarinnar að leggja mat á sannleiksgildi þessara frásagna.

Nefndin telur að prestar og biskupar kaþólsku kirkjunnar hafi vanrækt skyldur sínar um rannsókn mála í kjölfar ásakana sem þeim bárust um ofbeldi svo og um skráningu gagna og segir að innan kirkjunnar hafi átt sér stað þöggun varðandi þessar ásakanir.
Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndarinnar segir að kaþólska kirkjan hafi brugðist. „Það má segja það að vissu leyti, út frá þessum grundvelli sem við byggjum á, þá brugðust biskupar ekki við ásökunum sem komu fram.“

Pétur Burcher, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi segir í fréttatilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í morgun að hann biðjist afsökunar í fullkominni auðmýkt andspænis þeim persónum sem hér eiga hlut að máli.