Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Átta flokkar fá borgarfulltrúa

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Átta flokkar hljóta borgarfulltrúa samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Samfylkingin er með svipað fylgi í könnuninni og síðustu kosningum, tæp 32 prósent, og dugir það til þess að ná átta mönnum inn í borgarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn er einnig á svipuðum slóðum og í síðustu kosningum með um það bil 26 prósenta fylgi, sem myndi tryggja flokknum sjö fulltrúa. Píratar, með átta prósenta fylgi, og Vinstri græn, með 7,4 prósenta fylgi, næðu inn tveimur fulltrúum hvor. Miðflokkurinn kemur næstur með 6,5 prósent, sem dugir til þess að ná einum manni inn. Viðreisn nær manni inn með tæplega fimm prósenta fylgi, Sósíalistaflokknum duga tæp fjögur prósent til að ná einum fulltrúa og samkvæmt könnuninni duga 3,6 prósent til þess að Framsóknarflokkurinn hljóti Borgarfulltrúa.

Könnunin var send á 3.650 manns dagana 17. til 21. maí og svöruðu 1.610 henni, en 44 prósent. Einnig var spurt hvern þátttakendur vildu helst sjá í hlutverki borgarstjóra. Þar nefndu 43,5% Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingari, 29,4 prósent nefndu Eyþór Arnalds og 8,5 prósent nefndu Vigdísi Hauksdóttur.

Á kosningavef ruv.is er hægt að kynna sér öll sveitarfélög landsins, hvað brennur á kjósendum, hvaða flokkar bjóða fram og margt fleira sem tengist sveitarstjórnarkosningunum 2018. www.ruv.is/x18

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV