Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Átta ástæður til að fara á Aldrei fór ég suður

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir

Átta ástæður til að fara á Aldrei fór ég suður

27.03.2018 - 14:57

Höfundar

Tónlistar- og menningarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin í 15. sinn nú um páskana og lætur engan bilbug á sér finna. Það er óheyrilega margt að sjá og sækja á Ísafirði þessa daga, og hér verður stiklað á nokkrum stórum atriðum sem vert er að gefa gaum.

Fyrir þá sem ekki komast er vert að vekja athygli á að allri tónleikadagskrá hátíðarinnar verður útvarpað beint á Rás 2, og í mynd á RÚV2 og RÚV.is, á föstudaginn langa og laugardag.


Pétur Magg

Fallegi smiðurinn Pétur Magg hefur gegnt hlutverki kynnis, veislustjóra, og stemmningarpeppara allt frá upphafi hátíðarinnar og hann er einstakur í sinni röð. Hann kynnir öll atriði eins og Rolling Stones séu næstir á svið, og öskrar úr sér lungun sama hvort að Aron Can eða bílskúrshljómsveit frá Bolungarvík er að gera sig tilbúna. Stundum er hann vopnaður plastsverði sem hann sveiflar út um allt milli þess sem hann kynnir hljómsveitir eða kemur með tilkynningar um týnd börn eða bíla sem þarf að færa. Þess má geta að lagið „Fallegi smiðurinn“ eftir Prins Póló var samið um hann. Við sjáum myndband:

Mynd: RÚV / RÚV
Pétur Magg er einstök tegund.

Hatari

Þessi rammpólitíska gjörningasveit hefur farið hamförum undanfarið í tónleikahaldi og óhefðbundinni kynningarstarfssemi. Með fasíska fagurfræði, iðnaðarpönk og tilraunakenndar sviðslistir að vopni hafa þeir hrist upp íslensku tónlistarlífi svo um munar. Hatari var valin besta tónleikasveit ársins af Reykjavík Grapevine tvö ár í röð og stendur undir því. Þrátt fyrir fasta punkta eru engir tónleikar með Hatara eins, og það verður spennandi að sjá hvað þeir ætla að bjóða Vestfjarðakjálkanum og gestum upp á á Aldrei fór ég suður.

Mynd:  / 
Innslag Menningarinnar um Hatara frá því í fyrra.

Sundlaugin í Bolungarvík

Það er vel þess virði að keyra til Bolungarvíkur til að hlaða batteríin í sundlauginni allavega einu sinni. Þar er bæði inni- og útilaug, rennibraut og þrír pottar. Þá er gufubaðið og slökunarherbergið einn af bestu stöðum á Vestfjörðum. Ef þú ert heppinn gætirðu lent á karlaklúbbi Bolungarvíkur og hlerað stöðu útgerðanna og bollaleggingar um komandi sveitarstjórnarkosningar.

Mynd með færslu
 Mynd: http://www.bolungarvik.is/sund/
Sundlaugin í Bolungarvík. Það er þó ekki ólíklegt að snjór verðir þar á jörðinni um páskana.

Between Mountains

Vestfirski dúettinn Between Mountans sem sigraði Músíktilraunir á síðasta ári er skipaður þeim Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur frá Suðureyri og Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur frá Núpi í Dýrafirði, en þær nefna sig eftir fjöllunum sem voru á milli heimila þeirra. Dúettinn er ein bjartasta von Vestfjarða og kornungar stelpurnar hafa mikla söng- og lagasmíðahæfileika. Þjóðlagaskotin tónlistin minnir á það besta frá sveitum eins og Belle and Sebastian og First Aid Kit en þær frumsýndu nýlega glæsilegt myndband sem var tekið upp á Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri og Óshlíð. Það verður spennandi að sjá stelpurnar ári eftir Músíktilraunasigurinn spila á heimavelli.

Landslag Vestfjarða nýtur sín vel í myndbandinu auk sem fjölmargir íbúar leika þar aukahlutverk.

Fjallgarðurinn

Ísafjörður er ekki í Ísafirði heldur Skutulsfirði en fjallgarðurinn sem umkringir bæjarstæðið er engum líkur. Þar ber hæst tröllahásætið í fjallshlíðinni sem gnæfir yfir bænum.

3x stál, 3x technologi, Bærinn, bátar, bátur, eyrin, höfnin, Ísafjörður, Rúv myndir, Skaginn, smábátar
Bæjarstæðið er ægifagurt.

Dagskráin

Skipuleggjendum Aldrei fór ég suður er ákveðinn vandi á höndum því áhorfendur eru mjög ólíkir og dagskráin þarf að höfða jafnt til hipstera, heimamanna, afa og barnabarna. En það er einmitt eitt það skemmtilegasta við hátíðina og gerir hana jafn einstaka og raun ber vitni, breiddin og uppröðun í hljómsveitavali. Hvergi annars staðar sér maður nýjustu neðanjarðar-hljómsveit Reykjavíkur spila á milli unglingahljómsveitar frá Þingeyri og rótgróins skallapoppara.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Verið að gera klárt sviðið.

Ísafjörður

Dagskráin á Aldrei fór ég Suður hátíðinni sjálfri er bara tveir dagar, föstudaginn langa og svo laugardaginn. En það er vel þess virði að staldra lengur við því Ísafjörður er einn mesti menningarbærinn á landinu og fær mikla innspýtingu á hátíðinni frá utanbæjarfólki og aðfluttum heimamönnum sem snúa aftur um páskana. Það er ekki þverfótað fyrir ljóðaupplestrum, myndlistarsýningum, pöbbkvissum, böllum og allra handa uppákomum. Tjöruhúsið er líklega besti fiskveitingastaður á landinu, bakaríið er fyrsta flokks og Krúsin, Húsið og Edinborgarhúsið bjóða upp á þéttpakkaða skemmtidagskrá frá miðvikudegi til mánudags svo engum ætti að leiðast.

Ísafjörður, Mentaskólinn á Ísafirði, Mesnntaskóli, MÍ, Rúv myndir, skóli, Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Bærinn iðar af lífi um páskana.

Gestrisnin

Það kostar ekkert inn á hátíðina og heimamenn taka öllum með opnum örmum og bros á vör. Það eru fyrir- og eftirpartý í heimahúsum út um allan bæ og meiri líkur en minni á að þér verðið boðið í nokkur slík.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Aldrei fór ég suðurgata á Ísafirði

Menningarefni

Nýr rokkstjóri Aldrei fór ég suður

Menningarefni

Aldrei fór ég suður: Áhrif á allt samfélagið

Menningarefni

Aldrei fór ég suður í nýtt húsnæði