Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Átökin bitni á Framsókn í Norðausturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Átök lykilfólks innan Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi eru helsta ástæða þess að flokkurinn virðist vera að tapa þar miklu fylgi að mati stjórnmálafræðings. Hann telur að Píratar og Viðreisn muni hagnast mest á fylgistapi Framsóknar í kjördæminu.

Samkvæmt skoðanakönnunum undanfarið bendir allt til þess að Framsóknarflokkurinn tapi miklu fylgi í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Kannanir hafa sýnt að þeir fái einn til tvo þingmenn í kjördæminu sem yrði mikið fall frá síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk fjóra menn þar.

Segir þetta ekki þurfa að koma á óvart

Norðausturkjördæmi hefur í gegnum árin verið sterkasta vígi Framsóknarflokksins. Birgir Guðmundsson, lektor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að þessi útkoma þurfi ekki að koma svo mikið á óvart miðað við þau gríðarlegu átök sem hafi verið innan flokksins í kjördæminu.

Eins og góður söguþráður í óperu

„Átökin birtust fyrst, opinberlega getum við sagt, á miðstjórnarfundi,“ segir Birgir. „Síðan á kjördæmisþinginu og síðan á flokksþinginu, þar sem persónur og leikendur voru meira og minna fólk úr kjördæminu. Við sáum að þingmenn kjördæmisins fóru gegn formanninum og leiðtoganum í kjördæminu. Það varð talsverð dramatík á miðstjórnarfundinum þar sem varaformaðurinn lýsir hálfgerðri andstöðu við forystuna, eða formanninn. Og á flokksþinginu kórónast þessi átök með því að formaðurinn er felldur úr sessi og þetta eru átök sem myndu sæma hvaða meðal óperusöguþræði. Þannig að það er gríðarlegt drama sem hefur verið þarna og þingmaður hættir."

Ekki til þess fallið að byggja upp trúverðugleika

Í ljósi alls þessa segir Birgir ekkert skrýtið að þetta komi niður á fylgi flokksins í kjördæminu. Svona „heimiliserjur" innan flokka, eins og hann kallar það, hafi ekki mikinn kjörþokka. Og alls ekki í því pólitíska landslagi sem sé á Íslandi í dag, þar sem mikið los og hreyfing sé á fylginu og mikil tortryggni í garð gömlu flokkanna. Svona hlutir séu ekki til þess fallnir að byggja upp það sem þessi flokkar þurfi.

Fylgið yfir til Pírata og Viðreisnar

Birgir segir að frá því að núverandi kjördæmakerfi hafi verið tekið upp, hafi Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur jafnan skipt með sér um það bil helmingi atkvæða í Norðausturkjördæmi. Fylgi þessara flokka hafi verið að færast á milli þeirra í kosningum. Núna sýni kannanir að fylgið frá Framsóknarflokknum sé að fara eitthvað annað en til Sjálfstæðisflokksins. „Og það sem vekur athygli hjá mér er að fylgið er að fara yfir á nýja flokka og það er að leita sérstaklega virðist mér yfir á Pírata og eitthvað til Viðreisnar líka," segir hann.

Hafa ekki náð að mynda afgerandi sérstöðu

Og eigi Framsóknarflokknum að takast að rétta sinn hlut þyrfti flokkurinn að spila út einhverju sem höfði til kjósenda. Hinsvegar sé stutt til kosninga og ef þeir ætli að spila út einhverju, verði þeir að gera það fljótlega. „Það gildir í rauninni um flesta flokkana. Og ég held að Framsóknarflokkurinn sé ekkert mikið á öðrum stað heldur en hinir gömlu flokkarnir hvað það varðar. Þeir hafa ekki náð frekar en hinir flokkarnir að búa sér til einhverja afgerandi sérstöðu og þá eitthvað í líkingu við það sem þeir gerðu í síðustu kosningum," segir hann.

Gætu náð til sín óákveðnu fylgi 

Og Birgir segir að taka verði mark á könnunum sem séu að birtast þessa dagana og sýni að Framsóknarflokkurinn hafi tapað fylgi. En þar sem mikil hreyfing hafi verið á fylginu í könnunum undanfarið og margir verið óákveðnir, geti framsóknarmenn hugsanlega huggað sig við að einhverjir af þeim kjósendum muni skila sér til flokksins. „Ég held að þeir geti átt eitthvað meira inni í óákveðnu fylgi og því að þegar til kastanna kemur þá muni menn kjósa svolítið af gömlum vana og rata á sinn gamla bás í fjósinu. Ég held að það sé element sem ekki beri að vanmeta í þessu. Sérstaklega ekki í Norðausturkjördæmi," segir Birgir Guðmundsson.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV