Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Átök um fjárhag Fljótsdalshéraðs

Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég ætla ekki að lofa neinu, enda hef ég ekkert efni á því.“ Þannig hófst framboðsfundur á Fljótsdalshéraði með ræðu Ingunnar Bylgju Einardóttur sem skipar 4. sæti Héraðslistans. Lítið var um stór kosningaloforð frá fulltrúum þeirra fimm framboða sem bjóða fram fyrir sveitastjórarkosningarnar.

Tekjur jukust án þess að skuldir hafi lækkað

Í framboðsræðum sjálfstæðismanna var boðuð hagræðing og lokun Hallormsstaðarskóla enda telja þeir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins verri en gefið hefur verið til kynna. „Sveitarfélagið okkar er í þröngri stöðu það skuldar mikið. Staðan í upphafi kjörtímabils var ekki björt og ljóst að ráðast þyrfti í víðtækar aðgerðir til að vinna sveitarfélagið út úr þeim vanda sem það var komið í. Því eru mikil vonbrigði að í þær aðgerðir var ekki farið og skuldir sveitarfélagsins hafa ekki lækkað þrátt fyrir verulega tekjuaukningu. Rekstrartekjur sveitarfélagsins voru 3,2 milljarðar árið 2013 og hafa því hækkað um 500 milljónir á föstu verðlagi á kjörtímabilinu,“ sagði Anna Alexandersdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, sem sögðu jafnframt að þar sem peningarnir hafi ekki farið í lækkun skulda hafi reksturinn þurft á þeim að halda.

Sjálfstæðismenn hafa verið í minnihluta á kjörtímabilinu ásamt Héraðslistanum. Anna sagði fræðslumálin taka 55% af rekstrartekjum og að hjá sveitarfélaginu væru 250 stöðugildi með launakostað upp á 47% af rekstratekjum. Búast megi við auknum kostnaði vegna nýrra kjarasamninga „og því er óumflýjanlegt að greina alla rekstrarþætti sveitarfélagsins til að lækka kostnað og takast á við þau verkefni sem framundan eru.“ Hún sagði sjálfstæðismenn vilja auka tekjur með eflingu atvinnulífs og selja illa nýttar eignir ef ásættanlegt verð fæst. Sjálfstæðismenn tóku betur í að selja jarðir í eigu sveitarfélagsins en önnur framboð.

Vilja loka Hallormsstaðarskóla

Guðbjörg Björnsdóttir sem skipar 3. sæti á lista sjálfstæðismanna sagði útgjöld til fræðslumála hafi aukist um 80 milljónir milli áranna 2012 og 2013. „Rekstrargrundvöllur Hallormsstaðarskóla er brostinn og því verðum við að taka það skref að loka þeim skóla,“ sagði Guðbjörg. Hún sagði að einnig þyrfti að skoða Fellaskóla sem sé með yfir 100 nemendur og húsnæði skólans sé sprungið. Ef hægt yrði að stýra rekstri þvert á skólastofnanir gæti 1% bætt nýting starfsfólks lækkað rekstrakostnað um 5-7 milljónir. „Enginn málaflokkur eða stofnun er undanskilin í þessari skoðun,“ sagði Guðbjörg.

Meirihlutinn mótmælti dökkri mynd

Framsóknarmenn töldu upp það sem þeir hafa gert á kjörtímabilinu í að bæta fjárhag sveitarfélagsins með hagræðingu í skólamálum. Gunnhildur Ingvarsdóttir sem skipar 2. sæti á lista Framsóknar sagði að algjör viðsnúningur hefði orðið og sveitasjóður ráði nú við afborganir lána. Tónlistarskólinn hefði verið fluttur úr leiguhúsnæði og yfir í Egilsstaðaskóla og kennsla færð yfir á skólatíma. Það hafi stóraukið aðsókn í skólann. Leikskólarnir Tjarnarland og Skógarland hafi verið sameinaðir undir eina stjórn. Hallormsstaðarskóli sem rekinn sé sameiginlega af Fljótsdalshreppi og Fljótsdalshéraði hafi verið gerður að deild í Egilsstaðaskóla. „Þessi breyting á rekstri Hallormsstaðarskóla er talin óhjákvæmileg þar sem nemendunum hefur fækkað mjög,“ sagði Gunnhildur. Einnig að mötuneyti leik- og grunnskólanna hafi verið sameinuð í eitt.

Þórður Mar Þorsteinsson sem skipar 3. sæti Á-listans sagði listann ætla að leggja áherslu á að greiða niður skuldir á næsta kjörtímabili. Listinn vilji halda í sjálfstæði skólastofnana: „og hefur ekki séð nægjanleg fjárhagsleg eða fagleg rök fyrir sameiningu grunnskóla.“ Gunnar Jónson, oddviti Á-listans, sagði kosningarnar snúast fyrst og fremst um festu í fjármálum. Þó staðan sé þröng sé hún ásættanleg. Sveitarfélagið sé farið að greiða niður skuldir en í upphafi kjörtímabils hafi það verið að bæta við skuldirnar. Þetta hafi tekist án þess að skerða grunnþjónustu.

Saka hvort annað um að segja ekki alla söguna

Stefán Bogi Sveinsson, oddivit Framsóknarflokksins, sagði áhyggjur sjálfstæðimanna af skuldastöðu tiltölulega nýtilkomnar og að þær hefðu ekki verið áberandi fyrir 4 árum hvað þá fyrir 8 eða 12 árum. Þó að sveitarfélagið skuldi meira nú en fyrir 4 árum standi reksturinn undir skuldunum. Hann sagði mikilvægt að þegar rætt væri um fjármál sveitarfélagsins væru ekki bara sagðar hálfar sögur heldur að skýringar fylgdu með. Sjálfstæðimenn hafi talað um að tekjur hafi hækkað um 500 milljónir á föstu verðlagi og sett það í samhengi við að skuldirnar hafi ekki lækkað. „Þessar 500 milljónir, þær skýrast mestmegnis vegna yfirtöku á málefnum fatlaðra. Þeim fylgdu að sjálfstöðu tekjur en þeim fylgir líka kostnaður,“ sagði Stefán Bogi.

Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að Stefán Bogi hafi ekki heldur sagt alla söguna á fundinum. Það sé ekki rétt að 500 milljóna tekjuaukning sé „mestmegnis“ vegna yfirtöku á málefnum fatlaðra. Hún skýri um 300 milljónir en hinar 200 milljónirnar séu til dæmis vegna aukins útsvars meðal annars vegna úttektar á séreignasparnaði og hærri fasteignagjalda vegna hækkaðs fasteignamats. Hún bendir einnig á að mikil tekjuaukning vegna yfirfærslu málaflokka geti skekkt skuldahlutfallið. Það taki mið af tekjum og því geti skuldahlutfallið lagast án þess að neitt hafi breyst í rekstrinum.

Stefán Bogi segir í samtali við Fréttastofu að það sé erfitt að skilja út á hvað málflutningur sjálfstæðimanna gangi. „Menn hafi setið með hendur í skauti og ekki gert neitt en svo hafi dottið upp í hendurnar á mönnum peningar til að greiða skuldir. Það er ekki sanngjarnt miðað við alla þá hagræðingu sem hefur verið ráðist í.“ Það sem skipti máli sé að staðan hafi breyst á kjörtímablinu og nú ráði sveitarfélagið við að borga af skuldum. Sjálfstæðismenn boði harðar niðurskurðaraðgerðir. „Við segjum á móti að það þurfi ekki því við séum búin að fara í aðgerðir sem við getum staðið við. Hver er þá þörfin til að fara í niðurskurð?“

Fleiri vilja skera niður

Fulltrúar E-listans Endurreisnar sem er nýtt framboð á Fljótsdalshéraði sögðust vilja lækka skuldahlutfall sveitarfélagsins niður í 75% af tekjum og vill framboðið meðal annars hagræða með því að fækka nefndum. Erlingur Guðjónsson sem skipar 6. sæti listans sagði að skuldahlutfall sveitarfélagsins og stofnanna þess þurfi að fara niður í 75% af tekjum. Það væri ljóst að það myndi ekki takast á einu kjörtímabili. Fulltrúar  E-listans vilja viðhalda og bæta gæði náms í sveitarfélaginu. „Eiga orðræðu við foreldra, hlusta og framkvæma,“ sagði Erlingur.

Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans, sagði sveitarfélagið verða að koma skuldum niður fyrir 150% af tekjum og Ragnhildur Rós Indriðadóttir sem skipar 3. sætið sagði listann áfram vilja sjá samvinnu allra flokka við að koma fjármálum sveitarfélagsins í betra horf. „Á Héraði sjáum við sóknarfæri í meiri samvinnu skólastofnana og við vilum reka einn tónlistarskóla með nokkrum starfsstöðvum og skoða galla þess og kosti að reka einn grunnskóla á nokkrum stöðum,“ sagði Ragnhildur. 

Hér má hlusta á framboðsfundinn.