Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Átök og ólga í Framsókn - hvað gerðist?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framsóknarflokkurinn logar stafnanna á milli eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, lýsti því yfir að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins. Nokkrir þingmenn hafa verið afdráttalausir í skoðunum sínum á meðan aðrir hafa reynt að halda sig til hlés.

Meðal þeirra þingmanna sem hafa lýst yfir stuðningi við Sigmund Davíð má nefna Vigdísi Hauksdóttur, Gunnar Braga Sveinsson og Þorstein Sæmundsson auk Lilju Alfreðsdóttur sem ráðherra utan þings. Þeir sem hafa lýst yfir stuðningi við Sigurð Inga eru Karl Garðarsson, Höskuldur Þórhallsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þórunn Egilsdóttir, varaformaður þingflokksins, vildi ekki tjá sig við fréttastofu um sinn stuðning en hún bauð sig fram gegn Sigmundi í Norðausturkjördæmi. 

Þingflokkur Framsóknar er annar af stærstu flokkunum á þingi. Hann vann sögulegan sigur í síðustu þingkosningum undir forystu Sigmundar Davíðs, fékk 24,4 prósent atkvæða, nítján þingsæti og bætti við sig tíu þingmönnum frá kosningunum 2009.

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur mynduðu eftir kosningarnar ríkisstjórn með sterkan meirihluta - 38 þingmenn af 63. Og framan af kjörtímabilinu lék allt í lyndi - Framsóknarmenn voru hoppandi kátir yfir árangri flokksins.

En svo breyttist allt eins og hendi væri veifað sunnudagskvöldið 3. apríl þar sem fjallað var um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum. Sýnt var viðtal SVT þar sem Sigmundur Davíð gekk út eftir að hafa verið spurður út í Wintris en fjölmiðlar höfðu upplýst nokkrum dögum áður að það ætti kröfur í þrotabú föllnu bankanna.

Mynd: RÚV / Kastljós

Ljóst var að Framsóknarflokknum væri mikill vandi á höndum enda hafði Sigmundur Davíð verið óskoraður leiðtogi hans.  Ekki minnkaði hann þegar Sigmundur Davíð fór á fund forseta Íslands - að því er virtist án samráðs við þingflokkinn - sem hafnaði beiðni hans um þingrof.  „Á þessum örlagaríka þriðjudegi, þá varð trúnaðarbrestur milli formannsins og þingflokksins og þingflokkurinn hafði í hyggju að lýsa yfir vantrausti á formanninn og fela mér og þingflokksformanninum að leita leiða til að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, í útvarpsviðtali um helgina. Lendingin varð sú að Sigmundur steig til hliðar og Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra.

Mynd: RÚV / RÚV

Sigurður Ingi lýsti því yfir í viðtölum fyrstu dagana og mánuðina eftir að hann tók við lyklavöldum í forsætisráðuneytinu að hann styddi formanninn nú sem fyrr. „Ég hef gert það og mun gera,“ sagði Sigurður Ingi eftir miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í byrjun júní.  Daginn eftir ítrekaði Sigurður Ingi þessa afstöðu sína í viðtali við Sprengisand á Bylgjunni- Sigmundur Davíð ætti stuðning hans vísan. „Ég hef sagt það að ég muni aldrei bjóða mig fram gegn honum,“ sagði Sigurður Ingi.

Í lok júlí sneri Sigmundur Davíð síðan formlega aftur. Hann sendi flokksmönnum bréf þar sem hann gaf í skyn að það þyrfti ekki að kjósa í haust - það loforð væri háð því að klára ætti verkefnin sem flokkarnir hefðu tekið að sér að leiða til lykta á þessu kjörtímabili.  Hann ítrekaði þessa skoðun sína í viðtölum við fjölmiðla um miðjan ágúst.  

Tæpum mánuði seinna hafði andrúmsloftið breyst og Sigurður Ingi lýsti því yfir á lokuðum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins að hann myndi ekki gefa kost á sér sem varaformaður við óbreytta stjórn og bar fyrir sig trúnaðarbrest. „Ég hef alltaf og mun alltaf treysta þeim sem flokksmenn kjósa sem formann Framsóknarflokksins til að leiða flokkinn inn í kosningar og stýra milli kosninga,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við RÚV. Greint var frá því í fjölmiðlum að Sigurður Ingi hefði skotið föstum skotum á Sigmund Davíð og forystu flokksins en forsætisráðherrann vildi ekkert tjá sig um það.

Mynd: Starri Gylfason / RÚV

Sigmundur Davíð vildi eftir þessar yfirlýsingu varaformannsins þó ekkert kannast við trúnaðarbrest eða ósætti milli þeirra tveggja. „Ég veit ekki til þess að það sé nein ástæða til þess að það þurfi að vera ósætti milli mín og Sigurðar Inga, við höfum unnið saman frá því ég byrjaði í stjórnmálum og það samstarf hefur gengið vel,“ sagði Sigmundur sem taldi að verið væri að oftúlka ræðu Sigurðar Inga.  

Í síðustu viku hófst síðan kosningabaráttan með formlegum hætti þar sem oddvitarnir sátu fyrir svörum í sjónvarpssal.  Þar vöktu ummæli Sigmundar Davíðs talsverða athygli en hann sagði það meðal annars rangt að verið væri að kjósa snemma vegna Wintris-málsins.

Mynd:  / 

Á föstudeginum eftir þáttinn var boðað nokkuð óvænt til þingflokksfundar hjá flokknum sem stóð í nokkrar klukkustundir. Um kvöldið lýsti Sigurður Ingi því síðan yfir að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð.  Og Sigmundur Davíð, sem hafði þvertekið fyrir eitthvað ósætti og trúnaðarbrest milli þeirra tveggja,  sagði nú Sigurð Inga hafa gengið á bak orða sinna. Hann hefði ekki haldið honum upplýstum og ekki hefði verið haldinn neinn fundur með leiðtogum stjórnmálaflokkanna þar sem formanni Framsóknarflokksins hefði verið boðið.

Mynd:  / 

Búið er að birta dagskrá flokksþings Framsóknarflokksins en þar kemur fram að nýr formaður verði kosinn á sunnudeginum. Raunar vekur athygli að hvergi í dagskránni er gert ráð fyrir að forsætisráðherra ávarpi flokksmenn.