Átök í Framsóknarflokknum opinber

23.09.2012 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Átökin í Framsóknarflokknum eru orðin opinber segir stjórnmálafræðingur eftir að formaður flokksins ákvað að bjóða sig fram í fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi á móti þingmanni kjördæmisins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður framsóknarflokksins tilkynnti í gær að hann byði sig fram í fyrsta sæti í Nauðausturkjördæmi á móti þingmanni kjördæmisins. Höskuldur Þórhallssonn þingmaður Norðausturkjördæmis tilkynnti á föstudaginn að hann sæktist eftir fyrsta sætinu í kjördæminu. Þá leit út fyrir að hann væri að fara gegn Birki Jóni Jónssyni, núverandi oddvita flokksins þar.

Þingflokkur Framsóknarflokksins og landstjórnin héldu fund á Sauðárkróki í gær og þar lét Birkir Jón vita að hann ætlaði að draga sig í hlé.  Á sama fundi lét Sigmundur Davíð formaður flokksins vita að hann sæktist eftir forystusætinu í sama kjördæmi. Þetta kom Höskuldi á óvart og virtist sem Höskuldur og Sigmundur Davíð hafi ekki rætt framboðsmál sín á milli.  

Þeir framsóknarmenn sem fréttastofa hefur rætt við segja að það hafi verið til umræðu innan flokksins í töluverðan tíma að Sigmundur Davíð byði sig fram í fyrsta sæti í kjördæminu. Þar væri hans stærsti stuðningshópur og það hafi verið fyrir áeggjan fólks í Norðausturkjörrdæmi að hann bauð sig fram til formanns flokksins á sínum tíma. Sigmundur Davíð og Höskuldur buðu sig báðir fram til formanns flokksins árið 2009. 

Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur segir í Vikudegi í dag að með þessu séu átökin í Framsóknarflokknum orðin opinber. Það hafi legið í loftinu að Höskuldur og Sigmundur Davíð hafi ekki gengið í takt innan flokksins.  Með þessu verði ákveðið rof í sögu Framsóknarflokksins.  Allir formenn hans  frá Ólafi Jóhnnessyni að Guðna Ágústssyni undanskildum hafi annaðhvort verið í framboði eða flutt sig í framboð á höfuðborgarsvæðið. Með því hafi flokkurinn viljað sækja meira þéttbýlisfylgi.

Spurningin er hvaða skilaboð liggi í því að formaðurinn færir nú framboð sitt í landsbyggðarkjördæmi. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Sigmund Davíð.  

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi