Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Atli semur fyrir mynd með Reynolds og Jackson

Mynd: Samsett mynd / RÚV

Atli semur fyrir mynd með Reynolds og Jackson

25.04.2017 - 11:13

Höfundar

Atli Örvarsson semur tónlistina við bandarísku spennumyndina The Hitman‘s Bodyguard með stórstjörnunum Ryan Reynolds og Samuel L. Jackson í aðalhlutverkum. Myndin verður frumsýnd vestanhafs í ágúst og er spáð að hún verði einn af sumarsmellunum í ár.

Atli Örvarsson er eitt afkastamesta og farsælasta kvikmyndatónskáld Íslendinga og hefur samið tónlist fyrir fjölda vinsælla kvikmynda og sjónvarpsþátta, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hann hafði komið ár sinni vel fyrir borð í Hollywood en ákvað að söðla um fyrir nokkrum árum og flytja til Akureyrar, þar sem hann hefur haldið áfram að tónsetja kvikmyndir í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hann segist aldrei hafa haft meira að gera.

„Ég var pínu óstyrkur að flytja til Akureyrar, hélt að ferillinn myndi kannski bara enda en það er öðru nær. Annað hvort er þetta tilviljun eða maður er „exótískari“ því maður býr á Íslandi.“

Atli vinnur jafnan í Hofi á Akureyri en tók upp tónlistina fyrir Hitman‘s Bodyguard í hljóðveri úti á Granda í Reykjavík. Fjöldi íslenskra tónlistarmanna tók þátt í upptökum, til dæmis KK, Friðrik Sturluson bassaleikari og Einar Scheving trommuleikari. Patrick Hughes, leikstjóri myndarinnar, var á Íslandi á dögunum.

„Eitt af því sem vakti áhuga minn við tónlist Atla er ákveðin mýkt og einlægni. Það er nokkuð sem ég vildi fá í myndina, því þótt þetta sé hasarmynd með fullt af spennu og gríni býr hún líka yfir mikilli sál og viðkvæmni.“

Nánar verður rætt við Atla í Menningunni í Kastljósi í kvöld um nýju myndina sem og tónleika í Hofi á sunnudag, þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leikur úrval úr verkum Atla.