Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Atkvæðagreiðsla um ESB ólíkleg

06.06.2013 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að verulegar breytingar þurfi að verða á afstöðu Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu til að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna verði haldin á næstu árum.

Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir að gert verði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og ekki verði haldið áfram með þær nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er hins vegar ekki tímasett. Í viðtali við Bændablaðið í dag segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, að þjóðaratkvæðagreiðslan sé ekki á dagskrá. Það sé mat beggja stjórnarflokka og meirihluta landsmanna að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan sambandsins. 

Þessir stjórnarflokkar voru með það á sinni stefnuskrá og í stjórnarsáttmálanum að gert yrði hlé á viðræðunum og þær ekki teknar upp að nýju fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu og þá væntanlega af þeim ástæðum að þjóðin teldi hagsmunum sínum betur borgið innan Evrópusambandsins og óskaði eftir því að viðræðurnar yrðu teknar upp að nýju, segir Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu RÚV. 

Ráðherrann segist ekki ætla að beita sér gegn því að almenningur fái að kjósa um hvort aðildarviðræðunum verði haldið áfram. „Nú er forræðið á hendi utanríkisráðherra og hann er að fara erlendis að hitta kollega sína í Evrópu. Ég tel fullkomlega eðlilegt að við bíðum eftir þeim viðbrögðum og sjáum hvernig staðan verður á íslenskum vettvangi í framtíðinni.

Hann segist ekki sjá fyrir sér að atkvæðagreiðsla muni eiga sér stað á næstu árum. „Ég tel að það þurfi að koma til verulegar breytingar, bæði á ástandinu í Evrópu og eins á vilja og skoðun Íslendinga á málefninu til þess að svo verði,“ segir Sigurður.