Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Átján Sádum meinað að koma til Þýskalands

19.11.2018 - 11:48
Erlent · Asía · Khasoggi · Evrópa
Mynd með færslu
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. Mynd:
Stjórnvöld í Þýskalandi hafa bannað átján Sádi-Aröbum að koma til landsins vegna meintra tengsla þeirra við morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, greindi frá þessu í morgun og sagði að fá yrði svör við ýmsum spurningum um morðið. 

Khashoggi var myrtur í skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október og hafa Þýskaland og önnur Evrópusambandsríki ítrekað hvatt stjórnvöld í Ríad að upplýsa hvernig dauða hans bar að og hverjir stóðu þar að baki.

Í síðasta mánuði bannaði þýska stjórnin sölu á vopnum til Sádi-Arabíu þangað til staðreyndir málsins lægju fyrir.