Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Átján féllu í sprengjuárás í Mogadishu

24.02.2018 - 02:50
epa06558793 A wounded man lies on a stretcher in a hospital after car bomb explosions in Mogadishu, Somalia, 23 February 2018. Reports say at least 18 people were killed after two car bombs exploded in the city, injuring some 20 others. No one has yet
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 18 manns týndu lífi og yfir 20 særðust þegar tvær bílsprengjur voru sprengdar í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu á föstudag. Svo virðist sem um tvöfalda sjálfsmorðsprengjuárás hafi verið að ræða; annar árásarmannanna sprengdi sig og bifreið sína nærri forsetahöllinni og hinn við vinsælt hótel í næsta nágrenni. Í beinu framhaldi hófu félagar sprengjumannanna vélbyssuskothríð í miðborginni, að því er fram kemur í frétt Al Jazeera. Hryðjuverkasamtökin al-Shabab hafa lýst ódæðinu á hendur sér.

Yfirvöld í Sómalíu sendu frá sér viðvörun á fimmtudag, um yfirvofandi hryðjuverkaárás. Vígasveitir al-Shabab hafa gert fjölda mannskæðra árása á ýmis skotmörk í Mogadishu síðustu misseri. Óvenju friðsælt hefur verið í höfuðborginni síðustu vikur, eða frá því 18 lögreglumenn féllu þegar útsendari al-Shabab sprengdi sjálfan sig í loft upp í húsakynnum lögregluskólans í borginni.

Í október síðastliðnum létust 512 manns í mannskæðustu hryðjuverkaárás sem framin hefur verið í Sómalíu. Þótt al-Shabab hafi ekki lýst því illvirki á hendur sér telja sómölsk stjórnvöld víst að þau illræmdu samtök hafi verið þar að verki. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV