Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Athugasemdir koma mörgum árum of seint

18.12.2014 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Átak í innleiðingu EES reglnaSérstakt átak hefur verið gert undanfarið í að lögfesta reglur EES á Íslandi. Þingmaður Framsóknarflokksins gagnrýnir hve erfitt er að breyta þessum málum þegar þau koma inn á borð þingsins. Embættismenn segi athugasemdir hans koma fram mörgum árum of seint.

Í fréttum RÚV fyrir um ári var nokkuð fjallað um það hve illa íslenskum stjórnvöldum gengur í samanburði við Noreg, Liechtenstein og öll ríki Evrópusambandsins að taka upp reglur evrópska efnahagssvæðisins. Gloppur sem myndist á evrópska efnahagssvæðinu, þegar reglur eru ekki innleiddar á réttum tíma, komi sér illa fyrir bæði fyrirtæki og neytendur. Vegna þessarar stöðu hefur verið gert átak í að innleiða EES reglur hér á landi. „Við höfum verið á undanförnum mánuðum að vinna á þeim hala, fyrst og fremst með því að klára mál sem ekki er neinn ágreiningur um, vekja ekki neina sérstaka umræðu og krefjast ekki neinnar sérstakrar umræðu heldur hafa einhvern veginn dankast“, segir Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Fjöldi stjórnarfrumvarpa á uppruna sinn í ESB

Það sem af er vetri hefur þingið fengið tuttugu frumvörp frá ríkisstjórninni sem eiga uppruna sinn í Brussel í heild eða að hluta. Þetta er ríflega fjórðungur allra mála sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á þingi í vetur. Og þó mörg málin breyti litlu þá slæðast með önnur sem oft þarf að skoða vandlega. „Oft eru mjög góðar tilskipanir að koma frá Evrópusambandinu eða þessu EES svæði. Mjög gagnlegar t.d. fyrir neytendur og slíkt en sumar eru okkur mjög óhagfelldar. Eru að leggja á okkar neytendur kvaðir sem eiga ekki erindi hingað vegna þess að við búum ekki alveg við sömu aðstæður og neytendur almennt í Evrópusambandinu“, segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Frosti nefnir sérstaklega sem dæmi mál sem varða orkusparnað og íblöndun á endurnýjanlegu eldsneyti fyrir bílaflotann sem komið hafa á borð Alþingis. Hann hefur gert athugasemir við að málin skuli tekin upp hér á landi og telur það ekki eiga við. „Ég malda í móinn og reyni að stöðva og reyni að biðja um að fresta og reyni að vekja athygli á því að þetta sé okkur óhagfellt, okkar aðstæður séu nægilega öðruvísi til að Evrópusambandið sýni því skilning. Og vil taka það samtal“. 

Allt of seint að gera athugasemdir

Hann segist hins vegar iðulega fá þau svör að athugasemdirnar komi of seint fram, sérstakleg þegar málin hafa verið lengi í mótun, jafnvel mörg ár. „Það er frekar slæmt að maður er kosinn á þing og svo fær maður svörin þú ert kosinn tíu árum of seint, þú hefðir átt að vera hérna fyrir tíu árum að segja þessa hluti. Það er ekki svoleiðis, við þingmenn hljótum að vijla hafa eitthvað að segja um það hvernig lög eru sett, við erum lýðræðislega kjörnir og það er ekki ásættanlegt að einhverjir embættismenn segi okkur að það sé of seint“.