Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Athugasemd Símasamstæðunnar

01.03.2018 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Athugasemd Símasamstæðunnar við umfjöllun Kveiks um ljósleiðaravæðingu, þann 20.2.2018.

Umfjöllunina sem um ræðir má sjá hér

„Símasamstæðan gerir athugasemdir við umfjöllun Kveiks þann 20. febrúar um stöðu á ljósleiðaramarkaði og fjölda rangfærslna sem þar birtust. 

Í fyrsta lagi þarf ekki að vera í internetviðskiptum við Símann til að nálgast efnisþjónustuna Símann Premium, eins og mátti skilja á umfjöllun Kveiks. Fólk getur verið viðskiptavinur sjónvarpsþjónustu Símans og eins hinnar ólínulegu efnisveitu Símans Premium gegnum aðrar internetveitur á Íslandi en Símann. Eins er hægt að nýta nær öll aðgangsnet í landinu fyrir slíka þjónustu. Gagnaveita Reykjavíkur lokar hins vegar á óvirkan aðgang að neti sínu sem önnur sveitarfélaganet veita. Fyrir vikið njóta íbúar á útbreiðslusvæði Gagnaveitunnar ekki allra þeirra valkosta, sem í boði geta verið.  

Þá hefur þáttaröðinn um Stellu Blómkvist verið sýnd í opinni dagskrá á öllum sjónvarpskerfum landsins, þvert ofan í það sem skilja mátti af umfjöllun Kveiks. 

Símasamstæðan áttar sig á að ábyrgð RÚV er takmörkuð þegar viðmælandi reynir ítrekað að villa um fyrir fréttamanni eins og gerðist í umfjöllun Kveiks, en fjölmörg ummæli framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkur í þættinum fólu í sér hreinræktaðar rangfærslur. Auk þess hélt umsjónarmaður Kveiks fram staðhæfingum sem ýmist voru mjög villandi eða beinlínis rangar, svo sem að Síminn kæmi í veg fyrir að aðrir sjónvarpsdreifendur en Síminn byðu viðskiptavinum sínum upp á Tímaflakk.“ 

Athugasemd ritstjórnar Kveiks: 

Umfjöllun Kveiks um ljósleiðaravæðinguna þann 20.2. sl. sneri að neytendum. Hvað er ljósleiðari, um hvað snúast deilurnar milli Gagnaveitu Reykjavíkur og Símans/Mílu, hvers vegna er sums staðar verið að leggja tvo ljósleiðara og hvers vegna geta ekki allir keypt áskrift að tímaflakki Sjónvarps Símans? 

Það var útskýrt. Þó kann að vera að frásögn af máli sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú til umfjöllunar, þar sem Gagnaveitan og Vodafone telja Símann brjóta 5. mgr. 45 gr. fjölmiðlalaga sem leggur bann við því að nota fjölmiðlaveitu (Símann) til að beina viðskiptum til tengds fjarskiptafyrirtækis (Síminn/Míla), hafi verið ruglandi. Það er ekki nauðsynlegt að vera í viðskiptum við fjarskiptafyrirtækið Símann til að fá mögulegan aðgang að tímaflakki Sjónvarps Símans, heldur dótturfélag þess, Mílu. Reyndar er ekki hægt að kaupa slíka áskrift í gegnum Vodafone, þótt það sé á kerfi Mílu, en það segir Síminn að sé Vodafone að kenna (sjá neðar), það standi til boða. Það var hvergi minnst á línulega dagskrá Sjónvarps Símans, enda engar deilur um hana að því er best er vitað. 

Í skriflegu svari Símans við spurningum Kveiks um tímaflakkið sagði: 

Stöðin er fjármögnuð með auglýsingum og vildum við því ekki bjóða Tímaflakk og Frelsi án þess að nokkur greiðsla kæmi fyrir sjónvarpsefnið. Við fundum lausn á því og höfum frá því í fyrravor boðið Tímaflakk á Sjónvarp Símans og horfir þá áhorfandinn á auglýsingar á undan þáttunum sem hann pantar sér.  

Síminn býður viðskiptavinum sínum aðgang að Sjónvarpi Símans með þessum hætti og hefur boðið öðrum dreifendum það einnig. Þetta er gert til þess að standa straum af kostnaði. Vodafone hefur einhverra hluta vegna ekki boðið viðskiptavinum sínum þessa þjónustu. Við vitum ekki af hverju, en það er í boði. 

Eins er með það að bjóða alla sjónvarpsþjónustu Símans á neti GR – við viljum bjóða þjónustuna á þessum forsendum sem deilan stendur um. Um leið og GR veitir okkur þann aðgang sem við þurfum og leyfir okkur að nota innviði okkar munum við bjóða þjónustuna yfir þeirra kerfi –  

Í skriflegu svari Vodafone við spurningum Kveiks um tímaflakkið, sagði: 

Lengst af hefur Síminn alfarið hafnað að bjóða öðrum dreifiveitum aðgang að öllu ólínulegu efni. Síminn bauð hins vegar fyrir skömmu að Vodafone mætti bjóða tímaflakk Sjónvarps Símans, en einungis á kerfum Mílu en ekki GR, og með því skilyrði að Síminn gæti sett eigin auglýsingar á undan efninu. Vodafone telur óeðlilegt að þjónustan sé einungis boðin viðskiptavinum á kerfum Mílu… 

Málið er til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Kveikur tekur enga afstöðu til þess hvað sé rétt eða sanngjarnt í málinu, það er yfirvalda að skera úr um það. Greint var frá stöðunni eins og hún er, miðað við þau lög og þær reglur sem í gildi eru á Íslandi. Samkvæmt þeim er GR ekki skylt að veita óvirkan aðgang að ljósleiðaraneti sínu, eins og Símasamstæðan hefur óskað eftir og setur sem skilyrði fyrir því að bjóða alla sjónvarpsþjónustu Símans.  

Framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur sagði í umfjölluninni:  

Það má nefna það að í ríkisstyrkjaverkefnum úti á landi, grundvöllur fyrir því að fá styrki er að leggja tvo þræði. 

Það er ekki rétt að það sé skilyrði, aðeins þarf að hafa einn þráð tengdan alla leið. Það ku þó tíðkast víða að leggja fleiri þræði.  

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV