Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Átakafundur í flokksráði Vinstri grænna

Mynd: RUV / RUV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist mjög ánægð með þann stuðning sem málefnasamningur flokkanna þriggja fékk í flokksráði Vinstri grænna í kvöld. Hún segir að þetta hafi verið átakafundur en niðurstaðan skýr. 75 studdu stjórnarsáttmálann, fimmtán höfnuðu honum en þrír skiluðu auðu. Katrín verður forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn.

Tveir þingmenn Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir greiddu atkvæði gegn samningnum. Katrín segir að það hafi legið fyrir lengi. Það veiki stöðu flokksins í nefndum en hún er sátt við niðurstöðuna. „Við höfum náð verulegum árangri í þessum samningi. Ég tel líka að það sé mun betri kostur fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð að vera við ríkisstjórnarborðið, tala nú ekki um að leiða nýja ríkisstjórn í þessu landi. Það tel ég gríðarlega góða niðurstöðu þannig að auðvitað er ég ósammála þeirra niðurstöðu,“ segir Katrín Jakobsdóttir.