Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ástralinn laus úr haldi Norður-Kóreumanna

04.07.2019 - 08:29
Mynd með færslu
 Mynd: Fjölskylda Sigley
Ástralinn Alek Sigley er laus úr haldi Norður-Kóreumanna en ekkert hafði spurst til hans í rúma viku. Hann hefur nú yfirgefið Norður-Kóreu og er á heimleið.

BBC greinir frá þessu. Sigley er 29 ára gamall nemi og leiðsögumaður og hefur undanfarið stundað nám í kóreskum bókmenntum við Kim Il-Sung háskóla í Pyongyang. Ástæður þess að Sigley var tekinn höndum eru óljósar en hann var látinn laus eftir að sendiráð Svíþjóðar í Norður-Kóreu fundaði með þarlendum stjórnvöldum. Ástralía er ekki með sendifulltrúa í einræðisríkinu og því þurfti sænska sendiráðið að hafa milligöngu um mál Ástralans.

Sigley er virkur á samfélagsmiðlum og hefur tíst um upplifun sína af dvölinni í einræðisríkinu og aðstandendur hans fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar ekkert hafði birst frá honum á samfélagsmiðlum í nokkra daga.