Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ástráður og Jóhannes fá 700.000 í miskabætur

19.12.2017 - 11:36
Mynd með færslu
Ástráður Haraldsson Mynd: Ruv - RUV
Hæstiréttur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða lögmönnunum Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni 700 þúsund krónur hvorum í miskabætur vegna ólöglegrar málsmeðferðar við skipun 15 dómara við Landsrétt. Ástráður og Jóhannes Rúnar voru á meðal umsækjenda um stöðuna, dómnefnd mat þá á meðal 15 hæfustu umsækjendanna en ráðherra kaus að skipa þá ekki heldur breyta út af niðurstöðu nefndarinnar. Héraðsdómur dæmdi hvorugum þeirra nokkrar bætur.

Ástráður og Jóhannes Rúnar gerðu kröfu um bæði miskabætur og viðurkenningu á skaðabótaskyldu en Hæstiréttur fellst ekki á það síðarnefnda, enda hafi þeir ekki sýnt fram á að þeir hafi óumdeilt orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Ríkið er jafnframt dæmt til að greiða hvorum um sig eina milljón í málskostnað.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í september að dómnefnd hefði ekki farið að lögum þegar hún mat hæfi 33 umsækjenda um dómarastöðurnar fimmtán – hún hefði ekki borið umsækjendurna nægilega vel saman á þeim nauma tíma sem henni var skammtaður til verksins þannig í raun hafi ekki verið hægt að leggja mat á hverjir væru hæfari en aðrir.

Héraðsdómur taldi að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði einnig brotið lög með því að endurraða umsækjendunum í samræmi við það hvernig hún teldi að rétt hefði verið að meta þá. Fyrst hún var ósammála matinu hefði hún átt að senda málið aftur til nefndarinnar og fá þaðan nýja umsögn, að mati héraðsdóms.

Héraðsdómur sýknaði ríkið hins vegar af bótakröfum Ástráðs og Jóhannesar og sagði að þeir hefðu ekki sýnt fram á að þeir hefðu orðið fyrir tjóni af ákvörðuninni. Jafnvel þótt þeim hafi verið raðað hærra en sumum öðrum umsækjendenna í upphaflegu mati dómnefndarinnar hefði þeim ekki tekist að sanna að þeir hefðu verið skipaðir dómarar ef öll málsmeðferðin hefði verið í samræmi við lög, enda var listi dómnefndarinnar gallaður, að mati dómsins. Það var þessi síðasti hluti sem tvímenningarnir áfrýjuðu til Hæstaréttar.

Í rökstuðningi Hæstaréttar fyrir miskabótagreiðslunni segir, samhljóða um mál beggja mannanna: „Þótt ekkert sé komið fram í málinu um að ráðherrann hafi hagað gerðum sínum sérstaklega til að beina meingerð að æru eða persónu áfrýjanda höfðu ákvarðanir hennar eigi að síður þær afleiðingar að bættur var hlutur einhvers úr hópi fjögurra annarra umsækjenda sem dómnefnd hafði raðað lægra en áfrýjanda. Þótt ráðherrann hafi ekki í tengslum við þetta látið orð falla til að vega að persónu eða æru áfrýjanda verður ekki fram hjá því litið að henni mátti vera ljóst að þessar gerðir gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori áfrýjanda og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir þetta gekk ráðherrann fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu.“

Mynd með færslu
Jóhannes Rúnar Jóhannsson Mynd: Aðsend mynd - RÚV