Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ástarstjarna böðuð brennisteini gleður augað

02.12.2018 - 19:47
Mynd:  / 
Venus skín skært á morgunhimninum og skarður máni tekur næstu daga þátt í sýningunni. Ritstjóri Stjörnufræðivefsins segir að reikistjarnan sé á vissan hátt flagð undir fögru skinni en líka góður kennari. 

Það gerist annað slagið að Venus og Tunglið sameina krafta sína við að skreyta himininn með þessum hætti. „Þegar Venus er á lofti sést þetta einu sinni í mánuði þannig að í byrjun næsta árs fáum við aftur svipaða sýningu en þetta er alltaf jafn fallegt,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins. 

500 stiga hiti

Mynd með færslu
 Mynd:
Venus á morgunhimninum 2. desember.

Reikistjarnan Venus er álíka stór og jörðin og það tæki okkur um átta ár að fljúga þangað með farþegaþotu, væri það hægt yfirleitt. Hún er svo björt, að hún sést líka um hábjartan dag. „Hún endurspeglar svo miklu ljósi að hún virkar svona rosalega skær á himninum. Ef fólk horfir rosalega vel sér það líka svona fölgulan lit í ljósinu frá Venusi, þann lit má rekja til brennisteins í lofthjúpnum. Það eru brennisteinsský á þessari plánetu sem er eiginlega flagð undir fögru skinni því á yfirborðinu er 500 stiga hiti, hvorki meira né minna, út af gróðurhúsaáhrifum.“

Hann segir að þannig aðstæður skapist líklega ekki á jörðinni á næstu milljörðum ára. „Við þurfum samt að passa okkur og Venus hefur einmitt hjálpað okkur að læra um loftslagsbreytingar, ósoneyðingu og fleira þannig að við getum þakkað henni ýmislegt.“

Ein stjarna, ekki tvær

Forngrikkir kölluðu stjörnuna ýmist Hesperus eða Evsfórus, allt eftir því hvort hún skein kvölds eða morgna. 

„Hún er náttúrulega ótrúlega falleg þegar hún sést á lofti og fékk þess vegna nafn gyðju ástar og fegurðar hjá Rómverjum og Afródíta var nafnið sem Grikkir gáfu henni en hún hefur líka verið kölluð Hesperus og Evsfórus sem eru þá morgunstjarna og kvöldstjarna því menn héldu lengi vel að hún væri tvö fyrirbæri, svo tengdu þeir á milli og komust að því að þetta væri eina og sama plánetan.“ 

Þurfa menn að vera stjörnufræðingar til að geta sagt fyrir um hvenær hún sést að morgni dags og hvenær að kvöldi?

„Maður getur reiknað það út svona nokkurn veginn, þegar Venus er eins og núna, vestan megin við sólina og kemur upp rétt á undan henni, þá er hún morgunstjarna en þegar hún er austan megin við sólina sest hún skömmu á eftir sólsetrinu.“ 

Hverfur í febrúar og kemur í nýju gervi að ári

Þegar sól tekur að hækka á lofti hverfur Venus sjónum. „Hún er raunar skærust núna um þessar mundir og kemur til með að dofna á næstu mánuðum svo hverfur hún í birtu sólarinnar í febrúar og sést ekki aftur fyrr en í lok næsta árs.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:

Þá verður hún búin að skipta um hlutverk, og orðin kvöldstjarna. Næstu tvo morgna verður tunglið enn nær Venusi og best er, að sögn Sævars, að virða fyrir sér fegurðina milli átta og níu. 

Skuggi jarðarinnar sönnunargagn

Bleika beltið sem við sjáum á Vesturhimninum á morgnana er svo kennt við ástarstjörnuna.  „Ljós er að ferðast í gegnum lofthjúpinn og dreifast, í þessu tilfelli dreifist rauði liturinn úr ljósinu betur en sá blái. Þess vegna fær beltið á sig bleikan lit. Þar fyrir neðan er líka dökkt belti og það er skugginn sem jörðin okkar varpar út í geiminn. Þar sjáum við gallhörð sönnunargögn fyrir því að við búum á kúlu.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Venusarbeltið og skuggi jarðar.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV