Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ástarljóðavalsar í Hörpu

Mynd: RÚV / RÚV

Ástarljóðavalsar í Hörpu

05.04.2019 - 15:56

Höfundar

Á sunnudaginn næstkomandi stilla saman strengi sína fjórir einsöngvarar og tveir píanóleikarar, en þau munu halda tónleika í Norðurljósasal Hörpu.

„Tónleikarnir eru fyrsta verkefnið okkar saman sem kvartett,“ segir Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran sem sá um að skipuleggja tónleikana og koma hópnum saman. „Ég er ofsalega ánægð með þennan hóp, við æfum vel saman, vinnum vel og ég held við hljómum bara vel saman líka."

Á dagskrá  tónleikanna eru ástarljóðavalsar Brahms og einskonar ljóðasöngleikur eftir Schumann. „Fólk þekkir frekar þetta hefðbundna form með einum söngvara og píanista, en hjá okkur er þetta fremur óhefðbundið því þó við séum fjórradda erum við ekki kór,“  segir Fjölnir Ólafsson baritón sem einnig syngur á tónleikunum. „Brahms ætlaði þessi verk fyrir fjóra einsöngvara og það er þannig sem við flytjum þau.“

Ásamt þeim Hrafnhildi og Fjölni koma fram þau Hanna Dóra Sturludóttir messósópran og Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór en Hrönn Þráinsdóttir og Matthildur Anna Gísladóttir leika undir á píanó.

Kvartetinn flutti Næturgalann eftir Brahms fyrir þau Guðrúnu Gunnarsdóttur og Gunnar Hansson í Mannlega þættinum en hlýða má á flutninginn í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Sækja í tónlist úr fortíðinni

Klassísk tónlist

Ópera frumflutt 90 árum eftir lát höfundar

Dans

Vorblót í Reykjavík