Ástandsbörnin: „Mamma þín er kanamella“

16.04.2017 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: Viktoría Hermannsdóttir - Viktoría Hermannsdóttir
„Hún sagði mér að hann væri hermaður. Það var alltaf verið að spyrja mig af því að ég var svo allt öðruvísi en allir hinir. Það voru engir sólarbekkir og engar Spánarferðir og engin ættleidd börn þannig ég var bara eins og svartur svanur,“ segir Magnea Rivera Reinaldsdóttir.

Hún segir sögu sína í þáttaröðinni Ástandsbörn þar sem fjallað er um Ástandið með augum ástandsbarnanna - barna íslenskra kvenna og erlendra hermanna sem urðu til hér á hernámsárunum. Hægt er að nálgast þættina hér. 

Magnea er dóttir íslenskrar konu og bandarísks hermanns og upplifði sig mjög ólíka og utangarðs í æsku. 

Dekkri á hörund en aðrir

„Þess vegna auðvitað fór ég auðvitað að spyrja hana. Það eina sem hún sagði mér að hann hefði verið bandarískur hermaður. Væri frá New York og hann væri dáinn. Hún hefði fengið upplýsingar um það að skipið sem hann fór á út hefði farist.“

Magnea var dekkri á hörund en flestir Íslendingar, nokkuð sem þótti það óvanalegt í þá daga að mamma hennar þoldi ekki við með hana í Reykjavík, svo mikið var áreitið með barn sem var svona dekkra en aðrir.

Magnea var oft látin finna fyrir því að hún væri á einhvern hátt öðruvísi. Hún segir það ekki hafa haft áhrif á sig framan af að vita ekki hver raunverulegur faðir sinn væri. 

„Ég minnist þess ekki að þetta hafi haft eiginlega nein áhrif en að hafði miklu meiri áhrif hvað ég var mikið lögð í einelti af krökkunum. Kölluð svertingi og „mamma þín er kanamella“ og eitthvað. Það var erfitt.“

Magnea komst að því síðar að faðir hennar hafði ekki látist líkt og móðir hennar hafði sagt henni. Heyra má sögu Magneu og hvernig leit hennar að föður sínum gekk í þriðja þætti Ástandsbarna en hægt er að sækja alla þættina á hlaðvarpinu. 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi