Í síðustu viku gaf Rauði krossinn út skýrslu sem dró upp dökka mynd af stöðunni í Efra-Breiðholti, þar var meðal annars vitnað í félagsráðgjafa sem sagði að öll neikvæð tölfræði væri hæst í póstnúmeri 111. Fram kom að í hverfinu væri að vaxa úr grasi fjórða kynslóð fólks í félagslegum vandræðum, að hvergi væru fleiri ungar, einstæðar mæður á fjárhagsstyrk. Verst standi þó erlent fólk í láglaunastörfum, oft með mörg börn á framfæri. Sumum finnst myndin sem dregin er upp í skýrsulnni of dökk og of lítið horft til þess góða sem gert sé í hverfinu. Hafrún segir að áður fyrr hafi reglulega brotist út slagsmál meðal barna og unglinga í hverfinu.
„Ég man eftir yfir hundrað krakkaslagsmálum á bak við sjoppuna í hverfinu þar sem voru kylfur, hnífar og fleira. Þetta sérðu ekki í dag, allavega hef ég ekki heyrt um það. En mikið af þessu er alveg satt. Það er mikið um vandamál hérna en úrbæturnar eru mjög miklar miðað við hvernig kerfið var. Þegar ég var í Fellaskóla, hann er búinn að bæta sig gífurlega síðan. Mér finnst hverfið hafa bætt sig í heild og þetta er mitt hverfi. Ég er uppalin hér, el upp barnið mitt hér og kýs það fram yfir önnur hverfi.“
Fátt kom félagsráðgjöfum í hverfinu á óvart
Félagsráðgjafarnir Þuríður Sigurðardóttir og Elísabet Karlsdóttir, segja það sem kom fram í skýrslunni ekki hafa komið sér á óvart. Þessi staða hafi legið fyrir árið 2014 og vegna hennar hafi verið ákveðið að setja á fót fjölskyldumiðstöð í Gerðubergi, miðstöð sem á að þjónusta allt hverfið. Þær segja félagsráðgjafa ekki standa úrræðalausa frammi fyrir vanda hverfisins.
Hlýða má á umfjöllunina í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.