Ástandið á gossvæðinu í Holuhrauni er stöðugt að sögn Martins Hensch eldfjallaskjálftafræðings á Veðurstofu Íslands.Hraun flæðir úr gossprungunni jafnt og þétt.
Skjálftavirkni er stöðug, engir stórir skjálftar hafa þó orðið síðan á fimmta tímanum í dag, en þá mældist skjálfti upp á 4,9, sem átti upptök sín um þrjá kílómetra norð-norðaustur af Bárðarbungu. Martin segir færri stóra skjálfta væntanlega skýrast af minni þrýstingi eftir að gosið hófst. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur sagði í samtali við fréttastofuna í kvöld að öll gossprungan logi núna og mikil bráð komi upp og aðalhraunið orðið mjög þykkt. Hann segir virknina vera meiri norðantil í sprungunni, en syðsti gígurinn, sem var sofnaður, sé tekinn við sér aftur. Við segjum frá stöðu mála á heila tímanum í nótt, en rjúfum dagskrá með frekari upplýsingum ef þörf krefur.